154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

almannatryggingar.

20. mál
[16:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Því var breytt fyrir nokkrum árum hvernig þetta er framkvæmt og nú á að vera tekið af tekjum í lífeyrissjóð fyrir skatt, á ekki að vera hluti af skattstofni, þannig að það eru í rauninni geymdar skattgreiðslur líka. Það kemur í rauninni út á eitt þegar allt kemur til alls hvort það er tekinn skattur af því fyrir eða eftir, eina í rauninni veðmálið sem er tekið í því er hvort það verður ávöxtun af þeim fjármunum eða ekki. En það kemur þannig út á sléttu þegar allt kemur til alls út af því að lífeyrissjóðakerfið er í rauninni hluti af ríkisapparatinu af því að það er tekið beint af launum í rauninni nákvæmlega eins og um skatt væri að ræða.

Ég þakka bara Flokki fólksins kærlega fyrir málið og já, við erum alveg sammála um það einmitt að það þarf að tryggja grunninn, tryggja lágmarksframfærslu og gott betur, af því að það lifir enginn bara á strípaðri lágmarksframfærslu, því að þá er fólk akkúrat að skrimta í hverjum mánuði. Við megum ekki skilja fólk eftir þannig. Fólk verður að hafa eitthvert svigrúm til að hreyfa sig, eitthvert svigrúm til þess að nýta frelsi sitt til athafna. Það hefur fólk ekki ef það hefur áhyggjur af afkomu í lok hvers mánaðar. Ég þakka bara kærlega fyrir, og gerum betur.