154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

almannatryggingar.

20. mál
[16:20]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir síðara andsvar. Þegar við komum að því að ræða einmitt lífeyristekjurnar þá hefur verið ákall hjá Landssambandi eldra fólks um að frítekjumarkið vegna greiðslna úr lífeyrissjóði verði hækkað í samræmi við atvinnutekjur, þannig að í stað þess að það sé 25.000 kr. eins og það er í dag þá hafa þau ekki einu sinni farið fram á meira en að það verði fært upp í 100.000 kr. sem myndi gera mjög mikið fyrir eldra fólk. Eins og staðan er núna þá er um leið og þú ert kominn 1 kr. yfir 25.000 kr. úr lífeyrissjóðnum þínum þá eru almannatryggingarnar þínar skertar um 65 aura á móti hverri krónu eftir það. Þetta er ósanngjarnt kerfi og á morgun mun Flokkur fólksins mæla einmitt fyrir frumvarpi sem mælir fyrir um að hækka þetta frítekjumark úr 25.000 kr. frá greiðslum úr lífeyrissjóði upp í 100.000 kr. Það er í rauninni, eins og ég segi, þessi hóflega ósk eldri borgara. Í raun og veru ætti þessi tala ekki að vera undir 200.000 kr. eins og frítekjumark launatekna hefur verið fært upp hjá þessum þjóðfélagshópi akkúrat núna.

En ég tek líka undir með hv. þingmanni að betur má ef duga skal og við getum tekið saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, ef raunverulegur vilji er til að bæta hlutina, ef raunverulegur vilji er til að gera betur. En því miður, virðulegi forseti, þá virðist vera dálítið mikill skortur á því. Þess vegna verðum við að halda ótrauð áfram, áfram veginn bara og við gefumst aldrei upp þótt á móti blási og við trúum því að dropinn holi steininn og við trúum því að í lokin muni réttlætið sigra.