154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. 31 manneskja hefur dáið af völdum eitrana vegna vímuefnanotkunar það sem af er þessu ári. Árið 2021 voru lyfjatengd andlát 46 en þau höfðu þá aldrei verið fleiri. Hér erum við að tala um neyðarástand og það er ótrúlega sorglegt að líf vímuefnanotenda skipti ekki meira máli en svo að stjórnvöld láti sér duga að skipa starfshópa og vona hið besta í stað þess að grípa til tafarlausra aðgerða til bjargar mannslífum. Við verðum að fara í skaðaminnkandi aðgerðir og við verðum að gera það strax með það að markmiði að koma í veg fyrir dauðsföll vegna þess að við getum gert það. Við getum farið í aðgerðir strax sem koma í veg fyrir dauðsföll.

Vímuefnanotendur og aðstandendur þeirra hafa kallað eftir breytingum frá stjórnvöldum til fjölda ára. Rúmur meiri hluti þjóðarinnar er fylgjandi afglæpavæðingu neysluskammta, er fylgjandi því að hætta að refsa þeim sem nota vímuefni bara fyrir það eitt að nota vímuefni. Þörfin er brýn, forseti. Afglæpavæðingin bjargar mannslífum.

Með leyfi forseta:

„Við vorum 15 ára að prófa ný lyf í fyrsta skipti. Hann grátbað mig um að hringja ekki á sjúkrabíl þegar hann var að ofskammta því hann vissi að lögreglan kæmi með og sú tilhugsun var verri en dauði. Hann var kominn í flotta vinnu og ég vissi að ef hann endaði á sakaskrá gæti hann misst vinnuna. Ég þorði ekki að hringja fyrr en það var orðið of seint.“

„Hún var borin út úr íbúðinni og skilin eftir í snjónum neðar í götunni. Þessar mínútur hefði getað bjargað lífi hennar.“

Þessar reynslusögur vímuefnanotenda gefa skýra mynd af afleiðingum þess þegar vímuefnanotendur eru gerðir að glæpamönnum. Ungt fólk deyr vegna þess að enginn hringir eftir neyðaraðstoð. Þau þora því ekki þegar það er óvíst hvort þau muni þurfa að burðast með glæpamannastimpil ævilangt fyrir það. Þau hika ekki bara við að hringja á sjúkrabíl eða lögreglu heldur hika líka við að treysta læknum, við að treysta félagsráðgjöfum, sálfræðingum og sínum nánustu. Þau treysta ekki þeim sem segjast vilja hjálpa þeim því þau vita ekki fyrir víst hvort þeim verði refsað fyrir að segja satt og rétt frá. Refsingarnar koma í mörgum myndum, t.d. er þeim refsað í formi þess að fá ekki aðgang að verkjalyfjum út ævina þrátt fyrir sára þörf. Þetta eru raunveruleg dæmi um fólk sem hefur sótt sér aðstoð vegna vímuefnavanda, hefur verið flaggað í heilbrigðiskerfum og fær ekki aðgang að verkjalyfjum þrátt fyrir mjög sársaukafullar aðgerðir. Þeim er refsað með því að fá ekki vinnu eða missa vinnu, fá ekki áheyrn og fá ekki samastað í samfélaginu. Þetta eru raunverulegar afleiðingar og raunverulegar manneskjur sem hafa upplifað þessar afleiðingar.

Forseti. Eitt fyrsta landið til að hætta að refsa vímuefnanotendum var Portúgal. Árið 2001 var samþykkt þar í landi að varsla neysluskammta allra vímuefna væri ekki lengur refsiverð. Ástæða afglæpavæðingarinnar þar í landi var heróínfaraldur sem reið yfir þjóðina. Eftir lagabreytinguna dróst heróínnotkun hjá ungu fólki saman um 28% á fyrstu fimm árum afglæpavæðingarinnar. Auk þess fækkaði dauðsföllum vegna vímuefnanotkunar mjög mikið. Ef við berum saman lyfjatengd dauðsföll á Íslandi og Portúgal er munurinn sláandi. Árið 2019 voru lyfjatengd dauðsföll tæplega 14 sinnum algengari hér á landi. Síðan þá hefur lyfjatengdum dauðsföllum á Íslandi fjölgað verulega, óhugnanlega mikið.

Tékkar tóku líka þá ákvörðun að fara mannúðlegri leið í vímuefnamálum með því að afnema refsingar og þar hefur dauðsföllum vegna ofskömmtunar einnig fækkað. Tékkland hefur jafnframt mælst með lægstu tíðni dauðsfalla vegna ofskömmtunar í Evrópusambandinu.

Forseti. Núverandi refsistefna veldur mannlegum harmleik á skala sem samfélagið allt finnur fyrir. Í stað aðgerða sem draga úr skaðsemi vímuefnaneyslu hafa stjórnvöld fylgst með fólki deyja, með fangelsum fyllast og biðlistum meðferðarúrræða lengjast. Fangelsismálastjóri, Páll Winkel, sagði í erindi sínu á síðasta lagadegi að hann teldi að ef menn hefðu aðgengi að efnum og aðstöðu til að nota þau refsilaust myndi fækka um 40% í fangelsum landsins. 40%. Þessi yfirlýsing Páls rímar við reynslu þeirra landa sem hafa afglæpavætt neysluskammta, sem hafa hætt þessari stefnu, að refsa fólki fyrir að nota vímuefni. Í Portúgal voru glæpir tengdir vímuefnaneyslu eins og rán, innbrot og þjófnaður mjög algengir en eftir afglæpavæðingu neysluskammta hefur þeim fækkað verulega. Í tveimur ríkjum Bandaríkjanna, Oregon og Washington, hafa neysluskammtar vímuefna nýlega verið afglæpavæddir og fyrstu tölur sýna að handtökum vegna fíkniefnavörslu hefur fækkað verulega en samhliða hefur engin aukning orðið á ofbeldisglæpum.

Í stað þess að læra af reynslu þessara ríkja og stíga skref í átt til afglæpavæðingar hyggst ríkisstjórnin eyða 7 milljörðum í nýtt fangelsi á Litla-Hrauni og 350 milljónum í að fjölga fangelsisplássum á Sogni vegna þess að fangelsin okkar eru yfirfull. Þetta þarf ekki að vera svona. Í stað þess að dæla milljörðum í mannskemmandi fangelsi getum við byggt upp meðferðarúrræði sem grundvallast á því að vinna úr áföllum og bjóða upp á lausnir sem leysa sálfélagslega vandann sem veldur fíkninni. Það hefur sýnt sig að þegar við fjarlægjum glæpastimpilinn af fólki þá biður það um aðstoð fyrr. Þegar konur eru ekki lengur hræddar um að missa börnin sín, að börnin verði tekin af þeim, þá eru þær líklegri til að viðurkenna vanda og sækja um aðstoð fyrr. Að grípa fólk fyrr, á forsendum þess, bjargar lífum.

Afglæpavæðing neysluskammta er ekki róttækt mál. Þetta er ekki róttækt mál sem þarf að hugsa sig um í tvö, þrjú, fjögur ár eða fleiri án þess að fara í aðgerðir. Að hætta að refsa fólki fyrir vímuefnanotkun er ekki róttækt, forseti. Í stað þess að jaðarsetja og refsa fólki þá stuðlum við að auknu öryggi fólks og tryggjum aðgang að heilbrigðisþjónustu fyrir fólk í neyð. Það er löngu orðið ljóst að það er nákvæmlega engin aðstoð eða forvörn falin í því að fangelsa, sekta eða taka efnin af fólki. Það skiptir engu máli hvort um er að ræða einstakling með fíknivanda eða ekki. Þegar við hættum loksins að heyja stríð gegn jaðarsettu fólki getum við sett orkuna og fjármagnið sem sparast með afglæpavæðingu í að bjarga lífum, í að tryggja það að unga fólkið okkar og bara allt fólk í samfélaginu treysti því að geta hringt í viðbragðsaðila, treysti því að geta opnað sig um neysluna sína og mögulegan vanda án þess að vera refsað fyrir það, án þess að vera stimplað sem glæpamaður.

Við getum notað fjármagnið sem sparast með afglæpavæðingunni í að draga úr þjáningu, að aðstoða fólk við að vinna úr áföllum og græða sár. Það er samfélaginu okkar öllu til góðs og það er mín einlæga von að þingmenn ranki loksins við sér úr dáinu, muni að þeir eru flestir fylgjandi afglæpavæðingu og taki með okkur skrefið til fulls í þetta sinn. Við megum ekki við öðru ári í viðbót. Við megum ekki við því að bíða.