154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[17:18]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil byrja á því að segja að frá því að þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, setti af stað vinnu í þessum efnum og skipaði starfshóp sem skilaði niðurstöðu sem unnið var út frá, þá hef ég verið hlynntur þessari nálgun, eins og ég reifaði í ræðu minni, og þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar því að farin verði þessi leið þar sem við reynum að ná utan um þann veruleika sem við blasir, að núverandi refsistefna er einfaldlega ekki að skila þeim árangri sem að er stefnt. Núverandi refsistefna er ekki að draga úr neyslu fíkniefna og hún er ekki að koma fólki til aðstoðar. Ég get líka svarað hv. þingmanni á þá leið að komi slíkt mál frá hv. ríkisstjórn, þeirri góðu ríkisstjórn sem ég styð til góðra verka, er ég þess fullviss að það muni ekki standa á þingflokki Sjálfstæðisflokksins að leggja því lið að ná fram raunverulegum úrbótum. Ég held að það sé nokkurn veginn staðan, án þess þó að ég tali fyrir hönd annarra þingmanna með nokkrum hætti. Ég er eingöngu að lýsa minni eigin skoðun í þessum efnum.