154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að játa að ég bara veit ekki alveg hvernig ég á að svara fyrri hluta þessa andsvars hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Við höfum oft átt orðastað og ég hef nú yfirleitt reynt að krafla mig út úr hlutunum en ég segi bara: Ja, ef það væri skylduaðild að Vinstri grænum þá hef ég ákveðna samúð með hv. þingmanni, að hann væri óánægður. En það er auðvitað ekki þannig. Við búum hér, hv. þingmaður, í lýðræðissamfélagi, sem betur fer, og fólk gengur á kjörstað og kýs frjálsri kosningu og velur sér lista, lista hv. þingmanns eða ég vona að það verði fleiri sem velja þann lista sem ég stend fyrir, Sjálfstæðisflokkinn o.s.frv. Síðan er það nú bara þannig að niðurstaða kosninga hefur því miður leitt til þess að hér hefur aldrei komist á meirihlutastjórn heldur eru hér samsteypustjórnir. Það er auðvitað ófullkomleiki lýðræðisins.

En það kemur mér satt að segja dálítið á óvart að hv. þingmaður skuli ekki í raun taka undir meginmarkmið þessa frumvarps. Ég hélt einmitt að það væri hluti af þeirri hugmyndafræði sem Píratar berjast fyrir að einstaklingurinn ráði sér sem mestu sjálfur og að löggjafinn eða aðrir, hvort heldur það eru verkalýðsfélög eða vinnuveitendur eða aðrir, hafi sem minnst um það að segja. Þess vegna hefði ég haldið að hv. þingmaður ætti að leggjast á árarnar með okkur í Sjálfstæðisflokknum og tryggja íslensku launafólki sömu réttindi og (Forseti hringir.) gilda t.d. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og að því ég best veit víðast hvar í Evrópu.