154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður las það endilega út úr orðum mínum. Ég sagði að ég væri alveg til í að skoða samverkandi kerfi í þessum lögum því að það þarf að gæta hagsmuna allra þarna og síðast en ekki síst þeirra sem hafa í rauninni minnst völd. Það er þegar allt kemur til alls stefna Pírata, að passa upp á að þeir sem eru valdaminni í öllum aðstæðum séu valdefldir gagnvart þeim sem eru valdameiri. Í þessum aðstæðum eru það yfirleitt atvinnurekendurnir sem eru með peninginn sem eru valdameiri þannig að þar tryggjum við ákveðinn rétt þeirra sem eru valdaminni til að geta náð fram sínu réttlæti þegar allt kemur til alls. Hvort þetta frumvarp nái því er ég ekki alveg viss um. Þó að ég skilji kannski markmiðið með því þá held ég að útfærslan sé tvímælalaust ekki hárnákvæm um að svo muni verða raunin. Ég skal alveg taka undir það, ég sé hvert markmiðið er, hver viljinn er, en ég held að þetta frumvarp muni ekki ná því markmiði af ýmsum ástæðum sem ég rakti hérna áðan, t.d. það hvernig það að standa fyrir utan getur grafið undan þessum samtakamætti sem býr til samstöðu þeirra valdaminni gagnvart þeim valdameiri. Það að hægt sé að velja á milli stéttarfélaga getur einmitt gefið þeim sem eru valdameiri tæki til þess að hafa áhrif á það hvernig þessi samtakamáttur virkar. Þannig að ég skil markmiðið en ég sé ekki að þetta frumvarp nái því og þó að það standi félagafrelsi í titlinum (Forseti hringir.) þá þýðir það ekkert endilega að það sé frelsi. Ég held að það sé frekar öfugt, að það sé í rauninni verið að valdefla frekar atvinnurekendur með þessu heldur en hina.