154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:07]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég flutti langar ræður um þetta mál í fyrra og hef í sjálfu sér engu við þann málflutning að bæta. Ég ætla ekki að vera að skemmta skrattanum hér í dag en þetta er bara sama skaðræðisfrumvarpið og síðast; þingmál sem er til þess fallið að kippa fótunum undan sterkri verkalýðshreyfingu á Íslandi, grafa undan þáttum í vinnumarkaðslöggjöfinni sem hingað til hefur verið mjög breið sátt um og þáttum sem hafa lagt grunn að mikilli félagsaðild á Íslandi og þar með sterkri samningsstöðu launafólks gagnvart atvinnurekendum.

Eftir að mælt var fyrir málinu hér á síðasta löggjafarþingi bárust á annan tug umsagna frá stéttarfélögum og heildarsamtökum launafólks þar sem varað er eindregið við frumvarpinu og skyldi engan undra. En ef við lítum á björtu hliðarnar þá má kannski fagna því að í þessu frumvarpi birtist algerlega svart á hvítu hvar Sjálfstæðisflokkur nútímans stendur gagnvart verkalýðshreyfingunni á Íslandi og gagnvart ýmsum af grundvallarþáttum skipulags vinnumarkaðar hér á landi. Hér var einu sinni Sjálfstæðisflokkur sem sagði: Stétt með stétt. Hann skildi mikilvægi sterkrar verkalýðshreyfingar og skipulags vinnumarkaðar og leitaðist við með öllum ráðum að viðhalda sáttinni um þetta. Sá flokkur er ekki lengur til. Hann er minni í dag, bæði í hugsun og styrk, og einhvern veginn grunar mig að t.d. Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson eldri myndu snúa sér við í gröfinni ef þeir sæju til hv. þm. Sjálfstæðisflokksins hér í dag. Við í Samfylkingunni stöndum með launafólki í landinu gegn frjálshyggjudellu Sjálfstæðisflokksins. Megi þetta frumvarp sofna svefninum langa í velferðarnefnd Alþingis. Góða nótt.