154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

staðan í efnahagsmálum.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir heillaóskir. Ég kann að meta það. Ég kann að meta þær móttökur sem ég hef fengið og ég get sagt það fyrir mitt leyti að ég mun leggja áherslu á að vinna með þinginu öllu í því verkefnum sem skipta almannahag máli. Við vitum að hér eru mjög stórar áskoranir fram undan sem enginn leysir einn, ekki einu sinni fjármálaráðherra eða einstaka stofnanir, heldur við saman.

Það er yfirlýst markmið stjórnarsamstarfs og á blaðamannafundi fyrir örfáum dögum síðan með stjórnarflokkum um að markmið þessarar ríkisstjórnar síðari hluta kjörtímabilsins væri að ná tökum á verðbólgunni. Við getum kannski haft mismunandi skoðanir á því hvers vegna hún er eins og hún er, en ég held að heilt yfir ættum við að geta verið sammála um stóru línurnar í því. Hluti vandans er að fólk þarf auðvitað að trúa því að við munum ná tökum á verðbólgunni. Ef fólk trúir því ekki í nægilegum mæli þá hefur það einfaldlega áhrif á verðbólguna eins og hún er. Sömuleiðis vitum við að kjaraviðræður verða risastórt verkefni sem mun hafa meiri háttar áhrif á það hvernig verðbólgan þróast og það hvort fólk trúi því að við sem samfélag séum tilbúin að gera það sem þarf til að ná tökum á því. Ef okkur tekst saman að tala þannig að það séu réttmætar væntingar um að verðbólga muni lækka á komandi misserum þá trúi ég því að fólk muni verða tilbúið til að semja með þeim hætti. Ég skil að ef fólk er í mikilli óvissu og trúir því ekki að hún muni lækka, að það verði erfiðara að sannfæra sína félagsmenn um að launahækkanir verði ekki þeim mun meira í krónutölum — heldur trúi því að við náum fram sparnaði fyrir fjölskyldur í þessu landi með lækkandi vaxtakostnaði en ekki með því að hækka krónutölu sem síðan brennur og áfram verður verðbólga og við náum ekki tökum á því. Þetta er verkefnið. Ég get sagt fyrir mitt leyti: Ég skil mína ábyrgð í því. Ég mun leita til allra sem vilja vinna með mér og okkur í því vegna þess að ég trúi því raunverulega að þetta sé hægt.