154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

63. mál
[12:32]
Horfa

Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Þetta er í annað skipti sem ég mæli fyrir þessu máli. Ég ætla að leyfa mér að byrja á að fara yfir tillögugreinina en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.

Ráðherra geri grein fyrir niðurstöðum starfshópsins í lok maímánaðar 2024.“

Í greinargerð með málinu er nánar vikið að hugmyndafræði tillögunnar. Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða sinni íþróttaþátttöku vegna þess — og það þekki ég ágætlega þrátt fyrir að hafa ekki verið afreksmaður sjálfur, en hafandi verið sveitarstjórnarfulltrúi og þurft að taka á málum sem þessum — að fyrirtæki veigra sér við því að ráða starfsmenn sem þurfa að vera mikið frá vinnu vegna tíðra æfinga og keppnisferða. Afleiðingarnar eru ekki góðar vegna þess að þá stendur keppnisíþróttafólk frammi fyrir því flókna vali hvort það eigi að halda áfram að æfa og keppa í sinni íþróttagrein með tilheyrandi óvissu um framfærslu sína, og mögulega eru þarna einstaklingar sem þurfa að sjá fyrir fjölskyldu og öðrum, eða hreinlega að hætta því. Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk auk þess ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur, rétt til þess eða fæðingarorlofs. Ofan á þetta bætist auðvitað við eitthvað sem við viljum helst ekki sjá, þ.e. fjárhagsáhyggjur sem koma til viðbótar því að byggja upp feril sem íþróttafólk. Það er ekki hvetjandi og ekki til þess fallið að fjölga hér efnilegu afreksíþróttafólki. Ég tel og hef ýmislegt fyrir mér í því og ég held að það sé samstaða um það í okkar góða samfélagi að við viljum fjölga og styðja vel við afreksíþróttafólkið okkar.

Ég leyfi mér bara að nefna vegna þess að þessi tillaga kom fram hér á síðasta þingi að það hefur auðvitað ýmislegt gerst mjög jákvætt í þessum málum. Mennta- og barnamálaráðherra sem hefur með íþróttamálin að gera er búinn að setja ákveðna vinnu í gang og hefur ráðið til þess okkar fremsta sérfræðing til að vinna að þessum málum og reyna að styrkja alla umgjörð í kringum afreksíþróttastarf. En það breytir því ekki að við erum með aðra hlið á peningnum sem þessi tillagan gengur aðallega út á, að það sé hvati hjá fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og öðrum að ráða til liðs við sig þessa einstaklinga. Það skiptir mjög miklu máli að mínu mati að þessi hvati sé til staðar.

Við erum með kerfi sem við þekkjum ágætlega og hefur virkað vel, þ.e. almannaheillafélögin. Þar geta einstaklingar, fyrirtæki og aðrir stutt við þegar skilgreind félög sem heyra undir lögin og fengið þess í stað skattaívilnun. Það er mjög jákvæður hvati og það voru jákvæðar fréttir sem bárust af af því fyrir ekki svo löngu að það væru margir að nýta sér þetta úrræði og þessi nýju lög. Þetta hefur í för með sér að við erum að styrkja alla umgjörðina og við erum að styrkja þessi almannaheillafélög og það er eitthvað sem ég tel að við sem samfélag séum sammála um og þetta er að virka eins og á það að virka. Ég tel að þessa hugmyndafræði sé hægt að yfirfæra að ýmsu leyti eða með einhverjum hætti yfir á þessa tillögu sem ég fjalla hér um.

Þessi tillaga á bæði við einstaklinga sem eru í innlendum keppnisíþróttum og eru upprennandi afreksíþróttafólk og svo auðvitað núverandi afreksíþróttafólk. Sá sem hér stendur, ásamt öðrum flutningsmönnum tillögunnar, telur að það sé mikilvægt að skapaður verði þessi hvati sem ég hef farið hér yfir fyrir fyrirtæki til þess að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk og með því hafa fyrirtækin aukinn sveigjanleika til að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna og þarna kæmi þá aukinn hvati til að fá þessa einstaklinga til starfa. Við þetta má auðvitað bæta að sá sem hér stendur telur það einnig heilbrigt og mikilvægt fyrir atvinnulífið í heild að hafa öflugt íþróttafólk innan sinna raða, það smitar út frá sér með margvíslegum hætti á vinnustað. Það er ákveðinn agi, ákveðið vinnulag sem fylgir því að vera afreksíþróttamaður. Það er enginn sem dettur ofan af himnum fullskapaður afreksíþróttamaður. Það er gríðarleg vinna sem býr þar að baki, metnaður og eljusemi. Ég myndi halda að það væri mjög jákvætt fyrir flest fyrirtæki að fá slíka einstaklinga til liðs við sig. Það er alveg sama hvert er litið, hvernig þessir einstaklingar borða, æfa og slíkt, það er ákveðin einbeiting og fókus sem kemur með slíku fólki sem ég myndi halda að væri til bóta eins og ég hef áður sagt.

Á 151. þingi voru samþykkt lög sem ég hef áður nefnt, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, þ.e. lög um þessi almannaheillafélög sem ég hef farið yfir. Þar voru útvíkkaðir skattalegir hvatar og lögfestir nýir til að styðja við þennan þriðja geira en við tölum reglulega um mikilvægi hans. Þetta eru íþróttafélögin, björgunarsveitirnar, góðgerðarfélög og önnur mannúðarsamtök sem reiða sig svolítið mikið á stuðning frá einstaklingum og fyrirtækjum. Þarna er loks að mínu mati komin góð umgjörð í kringum þetta allt saman sem ég tel að sé hægt með skynsamlegum hætti að yfirfæra á þessa tillögu. Ég vonast auðvitað til þess að hún fái hér afgreiðslu, verði kláruð og að við förum að styðja við fólk með þeim hætti sem lagt er upp með.

En það er líka hægt að taka þessa tillögu og nýta hana áfram í þeirri vinnu sem ráðherrann er með um heildarumgjörð til stuðnings afreks- og keppnisíþróttafólkinu okkar. Ég veit að metnaður mennta- og barnamálaráðherra, hæstv. Ásmundar Einars Daðasonar, er að styðja enn betur við bakið á okkar afreksíþróttafólki. Það er það sem kallað hefur verið eftir af þeim einstaklingum sem teljast til þessa hóps og líka af hinum frábæru félögum og sérsamböndum okkar, þau hafa verið að kalla eftir nauðsynlegum breytingum á öllu þessu lagaumhverfi sem við búum við.

Ég vil bara ítreka það að ég tel að það sé hægt að horfa til þessara nýsamþykktu laga þannig séð og huga að því hvort laun til íþróttafólks frá launagreiðanda gætu verið, ég tel að það sé hægt, skilgreind með svipuðum hætti og einstaka gjafir eða framlög eða hvað það er til lögaðila sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla. Ég tel að það sé rétt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hæstv. mennta- og barnamálaráðherra horfi sérstaklega til þessara laga í sinni vinnu.

Við þetta má bæta að með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk með þeim hætti sem hér er lagt til erum við auðvitað að styðja við annað mikilvægt mál sem er lýðheilsa í landinu. Þetta ýtir undir mjög jákvæða hvata í þeim mikilvæga málaflokki og það þarf ekkert að fjölyrða um það hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem samfélag og þjóð að geta státað okkur af fjölbreyttu og efnilegu keppnis- og afreksíþróttafólki. Það er nú þannig að ef einhvern tíma næst samstaða í samfélaginu okkar þá er það þegar okkar fólki gengur vel á alþjóðavettvangi og það er í raun sama í hvaða íþróttagrein það er, það myndast einhvern veginn alltaf ákveðið stolt, alveg sama hver á í hlut, af fólkinu okkar og við erum mjög glöð öll sem eitt að taka á móti fólki og fagna því og lyfta því upp þegar vel gengur. En það er ekki nóg að mæta út á Leifsstöð og rétta fram blómvönd. Það verður að tryggja þessu fólki nauðsynlega og góða umgjörð til að styrkja það í því verkefni sínu að ná árangri á alþjóðavettvangi og það hafi getu og burði til þess að standa til jafns við mótaðilann, ef svo má segja, fólk annars staðar í heiminum sem er að keppa í sömu greinum, það geti staðið þeim einstaklingum jafnfætis. Ég tel að við séum á þeirri leið en þetta mál, sem er nauðsynlegt að verði klárað sem fyrst, myndi að mínu mati styrkja alla þessa umgjörð strax og yrði til mikilla bóta.

Svo má nefna að það þarf enginn að efast um forvarnagildi íþrótta sem er ótvírætt og mikilvægt fyrir börn og ungmenni að eiga sér öflugar fyrirmyndir sem afreksíþróttafólkið er, algjörlega óumdeilt, og það hefur jákvæð áhrif á allt annað. Það má þar nefna námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna vellíðan og ég tala nú ekki um á þeim tímum sem eru fyrir framan okkur í dag.

Við þetta má bæta að tillagan er í samræmi við íþróttastefnu stjórnvalda sem var lögð fram árið 2019 en þar kemur fram að fjárframlög til málaflokksins hafa aukist og eru að aukast jafnt og þétt og munu gera það áfram. Ég held að það sé til mikils að vinna með að búa til góða lagaumgjörð í kringum þetta allt saman.

Ég sé, herra forseti, að tíminn er að hverfa frá mér og ég vil endilega fá að telja upp þá hv. þingmenn sem eru með mér á þessari tillögu. Ásamt mér eru það hv. þingmenn Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Jakob Frímann Magnússon, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson og Tómas A. Tómasson.

Í lokin vil ég segja að ég trúi því að þetta mál fái mjög góða umfjöllun hjá efnahags- og viðskiptanefnd sem taki málið til afgreiðslu og það fái þá nauðsynlegu umræðu sem þetta mál á að mínu mati skilið.