154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn.

95. mál
[13:02]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu þó að ég sé ekki meðflutningsmaður. Ég er svo hjartanlega sammála því að við þurfum að skoða þetta betur. Nú þegar þátttaka foreldra er orðin þetta mikil á vinnumarkaði þá verður þetta alltaf svolítið erfitt. Ég tala nú ekki um þessa 12 eða 13 daga sem hvert foreldri á fyrir sitt barn, það dugar engan veginn. Hver þekkir það ekki sem er með tvö til þrjú börn sem veikjast hvert á eftir öðru og fyrsti mánuður ársins er jafnvel tekinn undir inflúensufaraldur? Það er alltaf mjög erfitt að koma þessu saman og mjög gott einmitt að tengja þetta réttindum barnsins til samvista við foreldra.

Þá er náttúrlega vert að skoða líka í þessu samhengi hvernig vinnumarkaðurinn tekur á þessu. Ég er bara að hugsa um þau kvenréttindi sem við erum búin að ná. Það er alltaf spurning. Segjum bara að foreldrar séu að sækja um vinnu og þá ertu spurð hvað þú átt mörg börn. Þá áttu kannski þrjú og þá áttu kannski 39 daga, eða hvað þeir eru margir, ef við margföldum með því, ef einhver fer að hugsa sig um. Það væri þá kannski ekki bara vinnuveitandinn heldur væri það kannski hugsað í stærra samhengi og þá væri kannski hægt að sækja bætur, eins og í öðrum veikindum, af vinnuveitandanum — bara til að huga að þessu. Það er löngu kominn tími til að skoða þetta betur.

Mig langaði bara til að koma upp til að taka undir þetta. Ég styð að þetta mál myndi fara lengra og sérstaklega í ljósi þess að réttur barnsins til samvista við foreldra og til umönnunar þeirra teljist mikilvægur. Það er það sem við eigum að hugsa þegar við erum að halda áfram með svona mál.