154. löggjafarþing — 19. fundur,  24. okt. 2023.

kynjajafnrétti í þróunarsamvinnu.

[14:11]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er staðreynd að jafnrétti er veigamikil undirstaða framfara. Það hefur árangur af baráttu fyrir kynjajafnrétti á Íslandi á undanförnum áratugum fært okkur heim sanninn um. Enn eigum við þó ærin verkefni fyrir höndum við að tryggja fullt jafnrétti. Enn er brýnt að berjast gegn kynbundnu misrétti, ekki síst ofbeldi. Á þessum degi er við hæfi að undirstrika mikilvægi þess að jafnrétti verði ávallt, eins og það hefur verið á undanförnum árum, meginstoð íslenskrar þróunarsamvinnu og að við herðum þar enn frekar róðurinn í stefnumörkun og öllum verkefnum.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig honum finnist hafa til tekist undanfarin ár og hvernig hann sér fyrir sér að við getum byggt enn betur undir kynjajafnrétti sem aflvaka félagslegs réttlætis, framfara og velsældar í þeim löndum þar sem við sinnum þróunarsamvinnu.