154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2002 í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál.

Ríkisreikningur er gerður á grundvelli alþjóðlegs reikningsskilastaðals fyrir opinbera aðila, svonefnds IPSAS-staðals og áritun ríkisendurskoðanda er án fyrirvara en með ábendingu um innleiðingu á breyttum reikningsskilum.

Undanfarin ár hefur verið unnið að innleiðingu IPSAS-staðlanna og í reikningnum nú er gert samstæðuuppgjör fyrir A- og B-hluta ríkissjóðs þar sem A-hluti skiptist í A1-, A2- og A3-hluta. Ríkisreikninga fyrri ára hafa eingöngu ná til þess sem flokkast nú undir A-1 hluta sem er sú starfsemi ríkisins sem er einkanlega fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum og framlögum. Séryfirlit 1 er birt yfirlit um afkomu fyrir A1-hluta ríkissjóðs sem er samanburðarhæfur við fyrri ár.

Rekstrarafkoma samstæðu A- og B-hluta ríkisins fyrir árið 2022 var neikvæð um 175,3 milljarða kr. Tekjur námu samtals 1.120,1 milljarði kr., þar af voru skatttekjur 861,0 milljarðar kr. Gjöld ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði námu um 1.214,6 milljörðum kr.

Virðulegi forseti. Efnahagsreikningur ríkissjóðs hefur tekið umtalsverðum breytingum síðustu ár. Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir samtals 3.442 milljarðar kr., skuldir og skuldbindingar samtals 3.245 milljarðar og eigið fé 197 milljarðar. Þrír stærstu eignaliðirnir eru eignarhlutir í félögum upp á 1.013 milljarða, samgöngumannvirki upp á 690 milljarða og fasteignir upp á 313 milljarða.

Rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt samkvæmt reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila, IPSAS, eins og ég hef áður nefnt, en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli, svonefndum GFS-staðli. Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er því ekki sambærileg við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga. Í ríkisreikningi er birt séryfirlit þar sem niðurstaðan er flokkuð í samræmi við GFS-flokkun fjárlaga og gerð samanburðarhæf við samþykkt fjárlög sem er í samræmi við A1-hluta ríkissjóðs. Afkoman á þeim grunni reyndist neikvæð um 89 milljarða.

Afkoman samkvæmt GFS-staðlinum er 138 milljarði kr. betri en fjárlög ársins 2022 gerðu ráð fyrir. Frávik frá uppfærðum áætlunum eins og þær voru birtar með fjáraukalögum fyrir árið 2022 voru kynntar hér á þinginu á haustmánuðum 2022 var jákvætt um 59 milljarða. Frumjöfnuður var áætlaður í fjárlögum ársins neikvæður um 132 milljarða en raunfrumjöfnuður var jákvæður um 6,7 milljarða.

Afkoman samkvæmt GFS-staðlinum er 138 milljörðum kr. betri en fjárlög ársins 2022 gerðu ráð fyrir. Frávik frá uppfærðum áætlunum eins og þær voru birtar með fjáraukalögum fyrir árið 2022 voru kynntar hér á þinginu á haustmánuðum 2022 var jákvætt um 59 milljarða. Frumjöfnuður var áætlaður í fjárlögum ársins neikvæður um 132 milljarða en raunfrumjöfnuður var jákvæður um 6,7 milljarða.

Virðulegi forseti. Það er fátt mikilvægara fyrir lítið samfélag sem okkar að ríkissjóður standi styrkum fótum og að við sem getum haft áhrif á þróun efnahagsmála göngum í takt. Við núverandi aðstæður, þar sem blikur eru á lofti um þróun efnahagsmála, bæði hér heima og alþjóðlega, er nauðsynlegt að við gætum aðhalds. Í þeim orðum felst að við horfumst í augu við þá staðreynd að óháð því hversu góður málstaður nýrra útgjaldahugmynda kann að hljóma, þá munu aukin útgjöld ríkissjóðs við núverandi aðstæður aðeins leiða til verðbólgu og hærri vaxta nema við drögum þá úr annars staðar. Það þýðir ekki að við getum ekki gert betur, heldur aðeins að við getum ekki eytt enn meiru en við gerum í dag. Þetta aðhald skiptir höfuðmáli til að efnahagsstefnan njóti trausts. Á grunni þess trausts geta verðbólga og vextir lækkað á nýjan leik og jafnvel nokkuð hratt á nýju ári. Sú þróun mun skipta fólkið í landinu meira máli en aukin útgjöld sem veita aðeins skammgóðan vermi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til fjárlaganefndar og til 2. umræðu að aflokinni þessari umræðu.