154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:47]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú horfi ég á fjárlög þessa árs þar sem ráðist er á reksturinn með almennum aðhaldskröfum. Ég nefni þetta almennar aðhaldskröfur en ekki sértækar aðgerðir. Við erum með ríkisstjórn sem stendur í fjárfestingarvanda í þjóðhagslega mikilvægum verkum. Það liggur alveg fyrir. Ég velti því áfram upp þessari spurningu til hæstv. ráðherra hvort þetta gæti komið til vegna þess að ekki er verið að setja fjármagn í að styrkja vinnuafl í þessum greinum og hvort stofnanir ríkisins hafi mögulega verið svo veiktar að þær hafi einfaldlega ekki bolmagn til að hrinda fjárfestingum í framkvæmd. Það er gott og vel að láta einhvern annan aðila um að gera þetta. Kannski snýst þetta um að láta einhvern annan hræra steypuna. Veit hæstv. ráðherra eitthvað um það? Hefur verið unnin einhver greining á því hvort það sé almennt talað þannig að einkaaðilar séu fljótari að finna til fjármagn eða ýta framkvæmdum úr vör? Mér þætti vænt um að sjá slíka greiningu unna. Það kann vel að vera að eitthvað sé til í því. (Forseti hringir.) Núna skiptir máli að við fáum ekki annan reikning á næsta ári, enn eitt árið, þar sem við erum með 50–60 milljarða kr. sem standa út af og að það verði unnin almennileg greiningarvinna hjá hæstv. fjármálaráðherra.