154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þeim tilfellum sem við erum að ræða er það svo að við erum í raun búin að finna fjármagnið, þannig að það er ekki spurning hvort einkaaðilar séu betri í að finna fjármagn en við. Það er okkar hlutverk að finna fjármagnið. Það er okkar hlutverk að tryggja að fjármagnið fylgi borgurum sem eiga rétt á ákveðinni þjónustu. Það er grundvallaratriði að fjármagnið sé til staðar, að rétturinn sé til staðar, að þjónustan sé til staðar og að þjónustan sé veitt. Þar held ég að sé til mikils að vinna, til að mynda að koma því út þegar rætt er um hjúkrunarrými að auka svigrúm þar þannig að aðrir geti hrært steypu eða byggt þau rými, og að þeir borgarar sem eiga rétt á þeirri þjónustu geti sótt hana. Það er vinna í gangi milli heilbrigðisráðuneytis og fjármálaráðuneytis sérstaklega um hjúkrunarrými sem er töluvert langt komin, þar sem það mun birtast að það er líklegt til árangurs að fara þessa leið. Ég vonast til þess að sú vinna sé alveg á lokametrunum þannig að við getum komið henni út og tekið ákvarðanir út frá því. (Forseti hringir.) Ég er sammála hv. þingmanni, það er enginn bragur á því að vera búin að finna til fjármagn sem hefur áhrif á fjárfestingargetu annars staðar og fjármagn í önnur verkefni og koma þeim síðan ekki út, hvort sem það eru efnahagslegir innviðir eða félagslegir innviðir. Við eigum einfaldlega að gera betur en við gerum í dag.