154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:50]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra varðandi skuldastöðu ríkissjóðs. Í ríkisreikningi kemur fram að í árslok 2022 námu skuldir A- og B-hluta ríkissjóðs 3.245 milljörðum kr. Þar af voru vaxtaberandi skuldir 2.175 milljarðar kr., sem samanstanda af skuldabréfum fyrir 2.066 milljarða kr. og ríkisvíxlum fyrir 109 milljarða kr. Ef við skoðum markaðsupplýsingar síðan þá kemur í ljós að heildarskuldir ríkissjóðs voru 1.624 milljarðar kr. Þar af voru erlendar skuldir 16% og verðtryggð ríkisbréf 25%. Við virðumst ekki vera að fara rétta leið hér. Eins og kemur fram í greinargerðinni námu skuldir A-hluta ríkissjóðs 2.636 milljörðum kr. í árslok í fyrra og hækkuðu um 18 milljarða kr. milli ára. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hækkuðu um 79 milljarða kr. á árinu og námu 880 milljörðum kr. Fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði grein fyrir nokkru og sagði að þessi ríkisstjórn hefði lækkað skatttekjur um 310 milljarða kr. Núna erum við að fara í ranga átt varðandi skuldir ríkissjóðs. Það kom fram í fjárlögum að við munum greiða mjög hátt hlutfall í vexti í ár. Við gerðum það alla vega í fyrra. Er ekki röng forgangsröðun að lækka skatta þegar skuldir ríkissjóðs hækka um 18 milljarða kr.? Er ekki kominn tími til þess að við förum einfaldlega að greiða niður skuldir af fullum krafti í þessu góðæri og á þessu þensluskeiði sem nú stendur yfir? (Forseti hringir.) Til dæmis eru erlendar skuldir 16% af skuldasafni ríkissjóðs.