154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við vorum sem betur fer komin í þá stöðu fyrir heimsfaraldur að skuldir voru lágar. Við fórum í miklar aðgerðir, efnahagslegar aðgerðir, sem heilt yfir gengu vel. Við náðum tilætluðum árangri og aðilar að utan hafa lagt mat á þær aðgerðir og komist að þeirri niðurstöðu heilt yfir að þær hafi verið réttar og gengið vel. Þær hins vegar kostuðu og skuldir ríkissjóðs jukust. Skuldir lækka núna 2023 og 2024. Þá tek ég með sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Jú, það er kominn tími til þess að greiða frekar niður skuldir ríkisins. Þær þurfa að lækka, þær eiga að verða lægri. Það er eðlilegt að ríkið skuldi. Það skiptir hins vegar máli hvernig þær skuldir eru samsettar og hvað þær eru háar, í samhengi við aðra þætti sem mynda hina efnahagslegu mynd. Jú, það er kominn tími til að greiða niður skuldir. Þær þurfa að vera í heilbrigðu og eðlilegu hlutfalli við annað vegna þeirrar stöðu sem við erum í núna. Við sjáum fram á þörf fyrir aukin útgjöld, til að mynda í heilbrigðis- og velferðarmálum, þótt ekki væri nema vegna líffræðilegrar þróunar og þótt við gerðum allt annað rétt. Þetta kallar á ákvarðanir sem við höfum ekki tekið, en þurfum að taka til að minnka þá gríðarlega miklu útgjaldaþörf sem þar er og sömuleiðis til að tryggja það að komandi kynslóðir taki ekki við verra búi og til að tryggja það að við gerum það sem er rétt í því fyrir þær kynslóðir. Við erum í þeirri stöðu að við framleiðum verðmæti hægar en við gerðum fyrir heimsfaraldur. Það tekur lengri tíma. Ef við horfum út fyrir landsteinana er ég hrædd um að þau áföll sem hafa orðið reglulega undanfarin ár séu því miður ekki að fara að breytast. Við þurfum að búa okkur undir það. Þá skiptir mjög miklu máli að vera ekki með of háar skuldir.