154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[15:54]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín skoðun er sú að við séum ekki að greiða niður skuldir nægilega hratt. Það er alveg augljóst mál ef maður skoðar fjárlög fyrir næsta ár að við erum á þensluskeiði núna. Ef það verður samdráttur í íslensku efnahagskerfi og samdráttur í ríkisfjármálum, þá verður ríkissjóður í verulegum vanda. Þá væri gott að hafa það þannig að skuldahlutfall ríkissjóðs væri enn minna. Mér finnst fyrirhyggjan ekki nægilega mikil. Það kemur greinilega fram í þessum ríkisreikningi að skuldir hækka milli ára í A-hluta um 18 milljarða kr. Við erum ekki nægilega vel undirbúin fyrir næsta samdráttarskeið sem mun koma fyrr eða síðar. Við erum svo heppin núna að við erum á þensluskeiði. Það breytir því ekki að við sölu á Íslandsbanka — í fyrsta lagi er ekki búið að selja bankann, svo að gert er ráð fyrir peningum sem eru ekki komnir í kassann. Ég get ekki séð að fyrirhyggjan sé fyrir hendi hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Við vitum hvernig fór fyrir síðasta fjármálaráðherra þegar hann var að selja bankann. Það breytir því ekki, og er alveg augljóst mál að mínu mati, að lækkun skulda ríkisins gengur ekki nægilega hratt fyrir sig. Það er m.a. vegna skattalækkana og vegna þess að við höfum ekki verið nógu varkár í ríkisfjármálum. Það ber þessi ríkisreikningur með sér. (Forseti hringir.) Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sé sammála mér um það, og það er gott að vita að hann sé sammála mér um það, að við eigum að greiða erlendar skuldir okkar hratt niður. En það virðist ekki vera gert nægilega hratt.