154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[16:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að húsnæðisvandinn er til staðar. Aftur er það eitthvað sem við berum ábyrgð á, sem skipulagsvaldið ber ábyrgð á. Almennt í regluverkinu eru tækifæri til að létta á, einfalda slíkar framkvæmdir og lækka kostnað. Þetta sáum við í úttekt OECD sem við létum gera. Þar eru nokkur hundruð tillögur að því hvernig hægt er að gera betur. Þær breyta ekkert öllu en hafa samt áhrif. Þetta er vandi sem löndin öll í kringum okkur glíma við. Það breytir því ekki að við þurfum að leysa það verkefni hér. Fjölgun fólks sem flytur til landsins til að sinna þeim störfum sem þarf að sinna ýtir undir þá áskorun. Það er sameiginlegt verkefni. Þess vegna skiptir máli að við skilum okkar í hlutdeildarlánum, stofnframlögum og öðru slíku. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um fráflæðisvandann. Þar er einfaldlega uppi ómöguleg staða sem hefur verið við lýði allt of lengi. Það er verkefni sem okkur verður að takast að leysa. Það er ekki hægt að horfa upp á þann kostnað sem verður til þar. Við þurfum önnur úrræði til að bæta þjónustu við þá sem þurfa á þjónustu að halda og leita á Landspítala. (Forseti hringir.) Svo erum við með verkefni varðandi vísitölu neysluverðs í skoðun. Það myndi hafa áhrif á útreikninga og gæti hjálpað okkur sömuleiðis varðandi breytingar þar.