154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

7. mál
[16:06]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ég mæli fyrir máli sem við höfum lagt fram nokkrum sinnum áður á undanförnum árum, var brýnt þegar það var fyrst lagt fram og hefur aldrei verið eins brýnt og núna. Það er tillaga um hvernig hægt sé að efla innlenda matvælaframleiðslu og búa til öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi fyrir landbúnað. Frá því að þetta var fyrst lagt fram, sem þá var þegar mjög tímabært, hefur ástandið því miður bara farið versnandi og því vona ég að í þetta skipti muni hv. þingmenn, og stjórnarliðar ekki hvað síst, líta til þessa máls, meta það og velta fyrir sér hvort ekki kunni að vera komin ástæða til að styðja við ítrekaða tillögu Miðflokksins um að taka á ófremdarástandi í matvælaframleiðslu og landbúnaði á Íslandi.

Það ríkir neyðarástand í þessari undirstöðuatvinnugrein landsins, atvinnugreininni sem hefur haldið lífinu í Íslendingum frá landnámi. Það er ákveðin úrslitastund. Við höfum oft bent á það, þingmenn Miðflokksins, á undanförnum árum að landbúnaður á Íslandi væri kominn í hættu, það væri orðið aðkallandi að bregðast við. En viðbrögðin hafa því miður verið lítil sem engin frá stjórnvöldum og raunar áfram verið sótt að greininni því eins og við höfum ítrekað bent á þá hefur verið sótt að íslenskum landbúnaði úr mörgum áttum á undanförnum árum. Fremur en að líta á þetta sem þá mikilvægu grein sem hún er á svo fjölbreytilegan hátt þá hefur starf bænda verið gert jafnt og þétt erfiðara með fráleitum tollasamningum, einstaklega óhagstæðum fyrir íslenska bændur, með því að innleiða hér regluverk á miklu harkalegri hátt heldur en í þeim löndum sem íslenskir matvælaframleiðendur eru að keppa við þannig að kostnaðurinn hér vex og vex hlutfallslega í samanburði við önnur lönd og það verður erfiðara og erfiðara með hverju árinu, jafnvel hverjum mánuðinum, fyrir íslenska bændur að keppa við þá framleiðslu sem á sér stað í útlöndum og er í auknum mæli flutt inn í samræmi við ákvarðanir og ráðstafanir stjórnvalda. Búvörusamningar hafa ekki verið til þess fallnir að efla greinina heldur virðast stundum ætlaðir, eins og núna síðast, til að hjálpa henni að einhverju leyti að draga saman og þá væntanlega á endanum hverfa.

Stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og umhverfismálum hefur verið, leyfi ég mér að segja, frú forseti, fjandsamleg íslenskum landbúnaði. Ég hef áður nefnt skýrsluna sem ríkisstjórn Íslands skilaði fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þar sem dregnar voru upp ólíkar sviðsmyndir af því hvernig landið gæti þróast og fór ekki á milli mála að sú sviðsmynd sem virtist vera eftirsóknarverðust að mati skýrsluhöfunda fæli í sér mjög verulegan samdrátt í íslenskum landbúnaði. Það yrði lítið eftir og það sem yrði eftir yrði lagað að því að framleiðslan losaði sem minnst, helst ekki neitt. Til að nefna dæmi þá var gert ráð fyrir því að kýr fengju ekki lengur hey heldur fengju að éta þang, verða einhvers konar sækýr í þessari framtíðarsýn íslenskra stjórnvalda.

Margt fleira mætti nefna um það hvernig starfsaðstæður íslensks landbúnaðar hafa verið skertar eða gerðar erfiðari. Svo bætast við þær aðstæður sem samfélagið stendur frammi fyrir nú með mjög háum vöxtum sem reynast íslenskum bændum alveg sérstaklega erfiðir vegna stöðunnar sem þeir eru í, hækkandi verði allra aðfanga og þar er nú ríkisstjórnin aldeilis ekki að hjálpa. Þvert á móti finnur hún upp ný og ný gjöld, kallar þau stundum græn gjöld eða græna skatta til að gera bændum lífið erfiðara, úrvinnslugjöld og hvaðeina. Allt hefur þetta auðvitað umtalsverð áhrif á rekstur íslenskra búa, íslensku fjölskyldubúanna og mjög lítið kemur á móti, ólíkt flestum öðrum sviðum samfélagsins.

Í Covid voru allir meira og minna sammála um að þegar ríkið væri að grípa til ráðstafana sem gerðu fólki og fyrirtækjum erfitt fyrir við að framleiða verðmæti og starfa þá þyrfti að bæta það, það þyrfti að halda rekstri hinna ýmsu fyrirtækja gangandi, brúa bilið, koma þeim í gegnum ástandið. Það hefur verið að mjög takmörkuðu leyti gert gagnvart íslenskum landbúnaði þótt þörfin þar hafi verið orðin mikil löngu fyrir Covid.

Það segir sína sögu, eins og ég hef margoft nefnt, frú forseti, hér á þingi undanfarin ár, að eina stéttin sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í sínum áformum með því sem birtist nú árlega í fjármálaáætlun til næstu ára, eina stéttin sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að fái jafnt og þétt lægri tekjur eru bændur, fólkið sem starfar í landbúnaði, starfar við að framleiða matvælin fyrir okkur Íslendinga, spara gjaldeyri, treysta byggðirnar, treysta öryggi okkar sem þjóðar. Eina stéttin sem fær tekjur að einhverju eða öllu leyti, eftir atvikum, frá ríkinu til að sinna verkefnum fyrir samfélagið sem á ekki að fá kjarabætur heldur þvert á móti á að skera niður ár eftir ár eru bændur. Þetta hef ég margsinnis bent á og því miður hefur ríkisstjórnin ekki horfið af þessari braut og sýnt greininni, þessari mikilvægu undirstöðugrein í meira en 1000 ár, mjög takmarkaðan áhuga, nema stöku sinnum birtist einn og einn ráðherrann eða þingmaður úr stjórnarliðinu og segir að það sé rétt að fara að velta fyrir sér stöðu landbúnaðarins en það er ekkert gert.

Þetta er eins og á svo mörgum sviðum öðrum. Munurinn er þó sá hvað landbúnaðinn varðar er að nú stöndum við frammi fyrir algerri ögurstund. Ef ekki er brugðist við hratt þá verður ekkert hægt að byggja upp matvælaframleiðslu á Íslandi aftur. Það verður a.m.k. afskaplega erfitt og verður ekki með þeim hætti sem nú er, með fjölskyldubúunum sem hafa verið undirstaða byggðar í landinu frá upphafi, og það verður líka miklu dýrara en að bregðast við vandanum í tæka tíð og taka á honum.

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, hefur tjáð sig töluvert á síðustu dögum um stöðu landbúnaðarins og lýst henni sem fullkomnu neyðarástandi. Hún bendir á að staðan sé orðin sú að það þurfi að leysa vandann á næstu vikum, ekki á næstu mánuðum eða næstu árum. Staðan í landbúnaði er sú að það þarf að leysa hann á næstu vikum.

Hermann Ingi Gunnarsson, oddviti sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar, var í viðtali við Morgunblaðið nú í upphafi vikunnar, ef ég man rétt, og lýsti þeirri uppgjöf sem blasir við í íslenskum landbúnaði, því að menn hafi reynt að þrauka ár eftir ár og misseri eftir misseri, mánuð eftir mánuð, í þeirri von að stjórnvöld myndu gera sér grein fyrir hættunni sem þessi atvinnugrein stendur frammi fyrir og bregðast við. En viðbrögðin séu engin og margir bændur núna ýmist hættir eða við það að hætta, því rekstrargrundvöllur starfseminnar sé brostinn. Það er vegna þess að menn líta ekki á heildarmyndina, frú forseti, þegar verið er að meta hvernig eigi að bregðast við í landbúnaði, menn líta ekki á heildarmyndina, líta ekki á heildartjónið, heildarkostnaðinn fyrir samfélagið af því ef bændur hætta störfum. En ég kem nánar að því á eftir og hvernig þessi tillaga er einmitt sniðin að því að líta á heildarmyndina. En Hermann Ingi segir að stjórnvöld hafi engan áhuga á þessum málum og það komi engin viðbrögð frá þeim, það sé enginn vilji til að gera nokkurn skapaðan hlut. Um leið er vinnuálag bænda eitthvert hið mesta, jafnvel hið mesta af nokkurri stétt, en aftur eina stéttin þar sem ríkið gerir ráð fyrir að tekjur eigi bara að dragast saman.

Ég vísa aftur í Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, sem rakti bæði í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni og í grein á Vísi, held ég að hafi verið, að enginn hópur hefði mátt þola annað eins tekjutap og bændur, kemur heim og saman við það sem við í Miðflokknum höfum verið að reyna að benda á undanfarin ár, og hættan væri sú að jarðir rynnu í auknum mæli til eða yrðu keyptar upp af erlendum stórfjárfestum. Þá hljótum við að spyrja okkur: Er þetta ekki spurning um sjálfstæði þjóðarinnar, að viðhalda öflugum innlendum landbúnaði? Og má ekki kosta einhverju til þess að viðhalda hér matvælaframleiðslu og undirstöðu byggða hringinn í kringum landið? Er það ekki einhvers virði?

Miðað við allt ruglið sem þessi ríkisstjórn eyðir peningum í, hafandi aukið ríkisútgjöld meira en nokkur önnur ríkisstjórn, gert það hraðar en nokkur önnur ríkisstjórn, hvernig má það vera að það sé ekki hugað að því að vernda undirstöðuatvinnugreinina landbúnað? Því það er góð fjárfesting. Það eru ekkert mjög mörg ár síðan íslensk matvælaframleiðsla bjargaði landinu frá gjaldþroti. Ég hef oft bent á þetta undanfarinn áratug eða lengur. Það mátti eiginlega engu muna í efnahagshruninu að Ísland lenti röngum megin við núllið, hefði ekki nægan gjaldeyri til að kaupa nauðsynjavörur að utan. Ef við hefðum þá ekki haft íslenska matvælaframleiðslu, sem á þeim tíma sparaði þjóðinni kannski 40–50 milljarða, auðvitað miklu meira á núvirði, með innlendri framleiðslu, þá hefðum við verið lent röngum megin við núllið.

Þannig að þessi íslenska matvælaframleiðsla er í fyrsta lagi spurning um sjálfstæði þjóðarinnar, um fæðuöryggi, og matvælaöryggi um leið, því allir treysta þessum gæðavörum sem íslenskir bændur framleiða og þær eru líka betri en það sem við getum nálgast utan frá og eytt í það gjaldeyri og innflutningi, og ég tala nú ekki um ef menn eru að spá í gróðurhúsalofttegundir hversu mikilvægt það er að framleiðslan fari fram innan lands frekar en að allt sé flutt inn.

Frú forseti. Ég bið yður að afsaka, ég kann að hafa gleymt mér aðeins því mér var mikið niðri fyrir um stöðuna í landbúnaðinum núna og hef því ekki náð að rekja tillöguna sem slíka enda líklega ekki verið tími til þess hvort eð er því hún er í 24 liðum og allítarleg greinargerð fylgir. Ástæðan er sú að hér er reynt að nálgast stöðuna í heild og bregðast við heildarstöðunni og til langs tíma. En við þurfum líka á því að halda akkúrat nú þessa dagana að ríkisstjórnin bregðist við því neyðarástandi sem ríkir í landbúnaðinum svoleiðis að hægt sé að fara í þessa uppbyggingu sem við lýsum hér.

Miðflokkurinn mun á komandi landsþingi nú um helgina leggja áherslu á að bregðast við þeirri stöðu sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir. Við höfum frá upphafi verið eindregnir stuðningsmenn íslensks landbúnaðar og verðum það aldeilis áfram. En nú, í þeirri stöðu sem hefur verið lýst í fjölmiðlum að undanförnu og ég reifaði hér stuttlega, þarf viðbrögð strax og lausnir strax. Þær lausnir birtast að mjög verulegu leyti í þessari þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram í fjórða sinn en þær munu líka birtast í stefnu Miðflokksins sem kynnt verður og samþykkt á landsþingi um komandi helgi. Miðflokkurinn stendur með íslenskum landbúnaði.