154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

7. mál
[16:25]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Skynsemistillögur, segir þingmaðurinn, en leitar aftur bara til þess sem áður hefur verið reynt; styrkir og styrkjapottar, ríkisútgjöld. Það er nánast hvergi í þessum tillögum Miðflokksins horft til markaðsbúskapar. Það er nánast hvergi horft til þess að nota nýjar leiðir eins og t.d. ræktun Vaxa hérna í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, sem eru nýjar leiðir í ræktun grænmetis og framtíðarleiðir. Nei, Miðflokkurinn horfi bara til baka og horfir bara á það sem Jónasi frá Hriflu mistókst og ætlar að endurtaka það. Það er alveg rétt að báðir þingmenn Miðflokksins eru líklega eindregnir stuðningsmenn íslensks landbúnaðar, eins og formaður Miðflokksins var að segja, og það erum við Sjálfstæðismenn líka. En ég tel að við getum ekki notað sömu gömlu aðferðirnar og hafa fært íslenskan landbúnað í þá stöðu og hann er núna til að leysa vandann sem er, heldur verðum við að fá markaðinn með okkur í lið og koma landbúnaðinum miklu frekar úr klyfjum hinnar þungu hendi ríkisins, frekar en að auka á þungann og drepa hann endanlega.