154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

velferð dýra.

12. mál
[17:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég vil nú biðja hv. þingmann afsökunar á því að ég náði ekki alveg fyrri hlutanum af því sem hann var að segja, var nú bara aðeins upptekinn. Að því er varðar fjöldagjaldþrot bænda og hverjum er um að kenna þá liggur það alveg ljóst fyrir að ég hef aldrei hlaupist undan þeirri ábyrgð sem ég ber sem þingmaður eða nokkru öðru sem ég geri. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að afkoma bænda hefur versnað á minni vakt. Það er bara þannig. Ég held reyndar að stór hluti af vanda bænda sé náttúrlega vandi okkar allra. Það er verðbólga, hækkandi vaxtastig og hækkandi kostnaður vegna hráefnis. Því held ég að það skýri sig sjálft.

Af því að hv. þingmaður talar um afkomu bændanna þá er auðvitað ömurlegt að kúabóndi sem gat tekið út úr rekstrinum u.þ.b. 8 milljónir á ári til að borga sér laun, nær eingöngu 2 milljónum í dag. Hver getur sætt sig við þá ömurlegu afkomu? Hvað þá þegar við tölum um sauðfjárbúskapinn sem hefur nánast verið rekinn undir núllinu. Ég þekki bara ágætlega vel til í sauðfjárbúskap í gegnum góðan kunningsskap og vináttu í sveitinni. Þetta er náttúrlega algerlega ekki bjóðandi nokkru fólki að lifa við þau kjör sem sauðfjárbændur hafa búið við. Það fer ekki saman hljóð og mynd hjá okkur í þinginu þegar við tölum um að matvælaöryggi og fæðuöryggi í landinu þurfi að treysta en svo viljum við ekki treysta búskap og viðgang sveitanna í landinu með því að halda byggðinni gangandi.