154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

36. mál
[17:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, frumvarp Flokks fólksins, eiginlega lífsnauðsynlegt frumvarp fyrir fatlaða einstaklinga. Ég var hér í þingsal á sínum tíma og var bjartsýnn fyrir hönd fatlaðs fólks þegar við samþykktum 2019 að fela ríkisstjórninni að lögfesta þennan samning í síðasta lagi 13. desember 2020. Eftir nokkrar vikur verða liðin þrjú ár frá þeim degi þegar átti að vera búið að lögfesta þennan samning — þrjú ár. Því miður hefur ríkisstjórnin dregið lappirnar við að lögfesta samninginn og með sama hraða sé ég ekki fram á að henni dugi næsti áratugur. Hún þarf sennilega lengri tíma til að ganga frá þessu máli því að hún er að draga lappirnar. Það segir okkur nokkuð um forgangsröðunina. Það hefur sýnt sig á Alþingi að ef á þarf að halda að koma einhverjum hlutum í gegn þá er það bara gert einn, tveir og þrír, ekkert mál. En ekki er hægt að gera það í málefnum fatlaðs fólks, þá eru dregnar lappirnar sem lengst. Þegar það varðar verst setta hópinn okkar og lappirnar eru dregnar og það tekur allt of langan tíma á allan hátt þá er eins og áhuginn hverfi og málið er enn þá meira dregið á langinn. Þetta gildir líka um lögfestingu valfrjálsu bókunarinnar um málefni fatlaðs fólks, þar sem kæruleiðir og annað eru inni til að tryggja réttindi fólks, sem ég hef ítrekað mælt fyrir einnig en ekkert skeður.

Við búum nú þegar í þjóðfélagi þar sem mannréttindi fatlaðs fólks eru langt á eftir. Þess vegna er nauðsynlegt að drífa þetta mál í gegn og klára það. Þetta á að vera hægt og það eina sem þarf er vilji, bara vilji ríkisstjórnarinnar. Ég er að vona að ríkisstjórnin sýni hann núna í eitt skipti og spýti í lófana og klári þetta mál í eitt skipti fyrir öll. Hvers vegna er ríkisstjórnin ekki nú þegar búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eins og samþykkt var á Alþingi fyrir þremur árum síðan? Það er ofbeldi gagnvart fötluðu fólki að draga lappirnar endalaust í þessu lífsnauðsynlega réttindamáli fatlaðra. En stóra málið er lögfestingin. Það er mál málanna. Klárum lögfestinguna þannig að hægt sé að beita þeim lögum, bæði gagnvart stjórnsýslunni og ekki síst fyrir dómstólum, til að verja mannréttindi fatlaðs fólks.

Það var að falla núna dómur í Hæstarétti um fatlað fólk, dómur um krónu á móti krónu skerðinguna, dómur um það þegar króna á móti krónu skerðingin var tekin af öldruðum en því ótrúlega fjárhagslega ofbeldi haldið áfram gagnvart fötluðu fólki 2017, 2018 og síðan 2019 var þetta lækkað í 65 aura á móti krónu. Og hvað gerði Hæstiréttur? Auðvitað vísaði hann málinu frá dómi, sagðist ekki taka ábyrgð, þetta væri bara stjórnvaldsákvörðun, þeim kæmi þetta ekkert við. Málið fer sennilega til Mannréttindadómstóls. Ég yrði ekki hissa á því. Þetta sýnir nákvæmlega það sem við erum að tala um hér, hversu lífsnauðsynlegt það er að lögfesta samninginn en þetta segir okkur líka hvers vegna ríkisstjórnin vill það ekki.

Það er enginn á móti þessum samningi nema ríkisstjórnin. Það er einhver innbyggð tregða hjá ríkisstjórninni að klára málið. Hvers vegna? Stígum skrefið til fulls og þá getum við verið stolt af því að Alþingi hefur lokið með glæsibrag að lögfesta samninginn sem við vorum búin að samþykkja 2019. Ríkisstjórnin hefur nægan tíma til að klára málið. Allt sem þarf er pólitískur vilji. Menn hafa dregið lappirnar vegna þess að það þarf að þýða samninginn en því er nú löngu lokið.

Við höfum orðið vitni að hreppaflutningum fatlaðs fólks, einstaklinga, á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og það ber auðvitað að stöðva. En til þess þarf samninginn. Svoleiðis ofbeldismál væri ekki hægt að framkvæma ef það væri búið að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna gagnvart fötluðu fólki. Þá væri heldur ekki hægt að troða ofan í kok á fötluðum einstaklingum og öryrkjum starfsgetumati sem þeim er ekki þóknanlegt. Það verður að sjá til þess að húsnæðismál fatlaðra einstaklinga verði mannsæmandi. Það er hægt að gera kröfu um það þegar búið verður að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.

Í samningnum er ákvæði sem myndi líka þýða að jafnt gildi um fatlað fólk og að mismunun yrði bönnuð. Sérstaklega þurfum við, eins og ég hef áður sagt og ítrekað, að taka utan um fötluð börn. Við þurfum að hugsa vel um öll börn en fötluð börn eru í sérstakri áhættu.

Þá er komið aðgengismálum. Aðgengismál fatlaðra eru í ólestri. Það er verið að berjast og það er verið að fara í rétta átt. Því miður virðist vera ákveðin tregða, og þá helst hjá opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, og það er sorglegt. Að það skuli þurfa t.d. að setja í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, í 15. gr., frelsi frá pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, það er óásættanlegt. Í 16. gr. er ákvæði um frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum. Það segir okkur hversu lífsnauðsynlegt það er að samþykkja þennan samning.

Að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu, á það ekki að vera sjálfsagður hlutur? Virðing fyrir heimili og fjölskyldu, menntun, tjáningar- og skoðanafrelsi, aðgangur að upplýsingum, heilbrigði, hæfing og endurhæfing, vinna og störf, þetta segir okkur svart á hvítu að við þurfum að taka á þessum málum og við þurfum að gera það núna strax, á stundinni. Fatlaðir einstaklingar geta ekki beðið lengur. Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi heitt og innilega og vona heitt og innilega að ríkisstjórnin fari nú að taka sig taki, hysja upp um sig brókina og lögfesta samninginn. Þetta er lítil krafa en risastórt skref fyrir þau sem þurfa að reiða sig á að samningurinn verði lögfestur þannig að þau geti fengið að verja sig og geti þar af leiðandi gert kröfu um að fá að lifa mannsæmandi lífi eins og við öll hin.

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir þetta frumvarp. Ég verð að segja eins og er: Að við skulum vera hér í dag, þremur árum eftir að á að vera búið að samþykkja þetta, að reyna að fá þetta samþykkt — ég hvet ráðherra til að bretta upp ermarnar og kalla inn fólk núna. Það er nóg til af hæfu fólki sem vantar til að vinna í því í eitt skipti fyrir öll að samningur Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur og viðaukinn einnig. Klárum þetta. Við verðum að hætta því sem hefur viðgengist, að það sé verið að brjóta ítrekað gegn fötluðu fólki, t.d. í nýbyggingum, í umferðarmálum. Það er t.d. verið að þrengja göngustíga. Það er ýmislegt í gangi í kerfinu þar sem er verið að brjóta reglulega gegn fötluðu fólki þegar kemur að aðgengismálum og réttindum. Til að stöðva það þurfum við þennan samning. Ef við værum búin að lögfesta samninginn væri ekki hægt að haga sér svona. Þess vegna eigum við að drífa í því.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við skulum vera að mæla fyrir þessu frumvarpi fyrir alla þá sem eiga við fötlun að stríða á sama tíma og það eru gríðarleg vonbrigði að ekki skuli vera fyrir löngu búið að lögfesta þennan samning. Við vitum að ofbeldi gegn fötluðu fólki er ljótur blettur á íslensku samfélagi. Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks mun hindra ofbeldið og þá sérstaklega það ofbeldi sem fatlaðar konur og jafnvel börn hafa orðið fyrir. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að fatlaðar konur eru mun líklegri en aðrar konur til að vera beittar ofbeldi. Þrátt fyrir að um sé að ræða alvarleg mannréttindabrot er ofbeldi gagnvart fötluðum konum enn falið og ósýnilegt og sjaldan brugðist við því af hálfu yfirvalda. Með lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks yrði að bregðast við þessu. Hér á landi hafa stjórnvöld brugðist við þessu með því að nýta tæknina og þróun á vefgátt. Við verðum að hindra ofbeldi og sjá til þess að það verði gert með lögum. Íslenskar sem erlendar rannsóknir leiða í ljós að fatlað fólk er í sérstökum áhættuhópi sem þolendur ofbeldis.

Í því samhengi verðum við að átta okkur á því að fátækt meðal þessara hópa er viðvarandi. Það sama gildir um fátækar konur í þessum hópi og fátækt fólk almennt og sennilega er það verra að því leyti til, eins og rannsóknir hafa sýnt, að það fólk sem lifir við ævarandi fátækt lifir skemur, týnir með því einum tug ára og oft vegna þess að það fær ekki þá einföldu þjónustu sem það á rétt á.

Kannanir sýna einnig að meiri líkur eru á að fatlað fólk verði fyrir ofbeldi en þeir sem teljast ófatlaðir. Einkum eru ungar konur sem glíma við fötlun líklegar til að verða fyrir kynferðisofbeldi. Erlendar rannsóknir sýna að börn sem glíma við þroskahömlun eru 4,6 sinnum líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ef við samþykkjum samning Sameinuðu þjóðanna þá batnar vonandi réttarstaða þeirra. Hvað segir þetta okkur? Ein birtingarmynd ofbeldis gagnvart fötluðum er sú að Alþingi hefur ekki lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það er bara staðreynd. Það eru þrjú ár síðan þetta átti að vera búið og það er ákveðið ofbeldi að gera ekki það sem hér í þingsal var samþykkt einróma að gera fyrir þremur árum síðan.

Fötlun er í eðli sínu hluti mannlegs lífs og enginn veit hver verður næstur fyrir tímabundinni eða varanlegri fötlun á lífsleiðinni. Fatlað fólk á Íslandi á rétt á því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og það strax og einnig viðauki hans. Þetta ber að gera.

Í því samhengi verðum við að átta okkur á því að ef þetta verður ekki gert og ef ríkisstjórnin ætlar ekki að spýta í lófana og sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að samningur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks verði lögfestur, og viðaukinn, þá eru þeir að bjóða því heim að það verði áfram brotin bæði lög og mannréttindi á fötluðu fólki. Það er alveg ótrúlegt að við skulum láta það viðgangast, eins og ég hef margoft bent á, að við skulum vera með t.d. á annað hundrað einstaklinga fasta inni á hjúkrunarheimilum, að við skulum vera í hreppaflutningum með fólk, að við skulum ítrekað heyra um þær hindranir sem fólk með fötluð börn verður fyrir í kerfinu. Að við skulum láta þetta viðgangast aftur og aftur, það er eiginlega sorglegt vegna þess að við erum búin að samþykkja þetta og búin að klára þetta fyrir þremur árum síðan. Hvernig í ósköpunum getur ríkisstjórnin látið þetta viðgangast? Og hvers vegna í ósköpunum gerir hún ekkert í þessu máli? Á meðan svo er þá er hún að samþykkja og bera ábyrgð á þeirri meðferð og þeim lögbrotum og mannréttindabrotum sem fatlað fólk verður fyrir. Ef hún virkilega vill taka á þessu máli þá lögfestir hún samninginn strax. Það yrði ekkert vandamál að fá þingið til að lögfesta þennan samning strax á morgun og ganga frá honum ef vilji væri fyrir því. Þá væri svo sannarlega hægt sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að það væri alla vega hægt að berjast gegn öllum þeim mannréttindabrotum og mismunun og ójafnrétti sem fatlað fólk verður fyrir í íslensku samfélagi.