154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

grunnskólar.

47. mál
[19:24]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni framsöguna og frumkvæðið. Málið er mjög jákvætt og snýr að því að færa kristinfræðikennslu í grunnskólum til fyrra horfs, eins og var til 2008. Það ætti hverjum manni að vera ljóst að áherslan á kennslu um kristna trú skýrist af menningu okkar og tengslum við sögu kristinnar trúar í landinu, enda er kristin trú sérstaklega tekin út fyrir sviga í lögum um grunnskóla. Það er bundið í lög að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð. Þekking á kristinni trú er sömuleiðis grundvallarforsenda þess að skilja vestræna menningu okkar og samfélagsgerð. Með þessu er með engum hætti gert lítið úr mikilvægi almennrar trúarbragðakennslu, enda er hún mikilvæg til skilnings á menningu og sögu annarra þjóða. Það eru að vísu ekki ríkjandi viðhorf víðast hvar í heiminum. Það kenna sannarlega ekki allar þjóðir heims t.d. kristinfræði til að efla umburðarlyndi og þekkingu á menningu og sögu annarra þjóða.

Virðulegi forseti. Kristin trú er rótgróin í íslenskri menningu og sögu sem ekki verður skilin án grunnþekkingar á kristni, hvað sem líður trúarsannfæringu hvers og eins. Íbúar hér eru að miklum meiri hluta kristinnar trúar og hér er stjórnarskrárvarin þjóðkirkja. Skilningur á íslensku þjóðfélagi og sögu hlýtur að vera forgangsmál í kennslu grunnskólabarna. Kennsla um kristna trú snýr m.a. að kennslu um grunngildin okkar sem eru kærleikur, fyrirgefning, miskunnsemi og mannvirðing. Við erum sannarlega lánsöm að búa í þjóðfélagi þar sem kristin gildi eru samofin menningunni.