154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

fjármögnun velferðarkerfisins.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég sagði ekki að 90 milljarðarnir hefðu allir verið teknir af tekjulægstu hópum í þessu landi. Ég sagði að það væri rangt að 90 milljarðar í skattalækkanir hefðu verið teknir úr velferðarkerfinu þegar við höfum sett himinháar fjárhæðir í velferðarkerfið til viðbótar við það sem áður var. Það sem ég sagði var að tekjulægstu hóparnir hefðu notið góðs af þeim tekjuskattsbreytingum sem farið var í á síðasta kjörtímabili og við höfum markvisst horft á þann hóp og spurt okkur hvernig hægt er að bæta stöðu þeirra. Það er kannski ágætt að hér komi skýrt fram að það sem hv. þingmaður er hér að boða er að það þurfi frekari skattahækkanir sem heita því nafni. Sama hvaða nöfnum hv. þingmenn geta nefnt það þá eru skattahækkanir skattahækkanir. Við höfum einfaldlega að mínu mati alls ekki gengið of langt í skattalækkunum. Aftur nefni ég að okkar vandi og vandi ríkissjóðs er ekki tekjuvandi. Það er miklu frekar útgjaldavandi sem blasir við okkur þar sem verkefnið er skýrt og ég heyrði (Forseti hringir.) hv. þingmann ekki koma með neinar sérstakar lausnir á því. En það er einfaldlega verkefnið.