154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:28]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir hans ræðu í þessu máli. Ég get tekið undir margt í ræðunni en það var annað sem mér fannst kannski ekki alveg vera í takti við það frumvarp sem ég var að leggja hér fram. Ég byrja á að spyrja hv. þingmann hvernig hann fékk það út að ég væri að blanda þessum tveimur málum saman, af því að ég reyndi, bæði í greinargerðinni með frumvarpinu og í máli mínu, að segja að þetta væri einmitt sitthvor hluturinn og að ég væri ekki að fjalla um starfslaun listamanna hér. Ég sagði að það væri frekar að þróa þau áfram til að styðja við unga og nýja listamenn og annað slíkt.

Ég get tekið undir mikilvægi listarinnar og fjölbreytni hennar. Í þessu frumvarpi er ekki neitt gert til þess að draga úr aðkomu ríkisins að listsköpun eða mikilvægi listar í landinu, langt í frá. Það er bara erfitt að svara þeirri spurningu að þó að við viljum heiðra okkar virðulega, góða og mikilvæga listafólk, hvernig það réttlætir það að viðhafa kerfi þar sem aðeins að hámarki 25 útvaldir af Alþingi fá heiðurslaun en allir hinir sem eru að gera það svo gott — ég hugsa að listgreinarnar séu örugglega fleiri en 25. Hvernig er þá hægt þá að réttlæta slíkt kerfi sem var búið til á öðrum forsendum í staðinn fyrir að opna hugann og sjá hvernig við getum heiðrað fleira af okkar góða listafólki?