154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:37]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Frú forseti. Já, það er margt í þessu og ég er að sumu leyti sammála því sem hv. þingmaður hefur hér sagt um viss vandkvæði á því fyrirkomulagi sem við höfum haft á heiðurslaununum til þessa. Á síðustu öld skiptu stjórnmálaflokkarnir, þingflokkarnir, þessu dálítið á milli sín. Hver flokkur fékk sinn listamann og svo var kannski úr misgóðum listamönnum að velja hjá viðkomandi flokkum þannig að oft var það dálítið undir hælinn lagt hvernig til tókst með þá sem fóru á heiðurslaun, án þess að ég ætli eitthvað að fara að nefna einhver sérstök nöfn hér um listamenn sem hafi ekki verið þess verðir að vera á heiðurslaunum. Það er ekki við hæfi að gera það hér, en þess voru dæmi vegna þess að viðkomandi höfðu þá góð tengsl inn í tiltekna stjórnmálaflokka. Þetta íslenska kunningjasamfélag virkaði dálítið þannig að ef maður var í góðum samböndum gat maður kannski komist á heiðurslaun listamanna þó að maður væri ekki einu sinni kominn á eftirlaunaaldur.

Mér finnst lykilhugtak í þessu vera það sem segir í greinargerð; samfélagslegur ávinningur. Í greinargerðinni er sett spurningarmerki við það hvort það sé einhver samfélagslegur ávinningur af því að vera með þessi heiðurslaun. Því er eiginlega svarað neitandi og er þá borið saman við t.d. starfslaun listamanna, framlög til íþrótta eða annað því um líkt. Það er vissulega sjónarmið að samfélagslegur ávinningur er kannski ekki alveg augljós. Þessi heiðurslaun geta skipt sköpum um afkomu viðkomandi listamanna. Við vitum að margir listamenn búa við sárafátækt vegna þess að þeir hafa ekki greitt í lífeyrissjóði og þar fram eftir götunum og eiga ekki sparnað þegar kemur að ævikvöldinu. Það getur skipt miklu máli að hafa slíkar fastar tekjur án þess að þurfa að vera að fylla út sífelldar umsóknir eða sýna einhver afköst. Samt er það kannski ekki aðalatriðið að þessi heiðurslaun séu fyrir viðkomandi listamenn. Samfélagið er ekki með þessi heiðurslaun fyrir viðkomandi listamenn. Samfélagið er með þessi heiðurslaun fyrir sig. Þetta er hinn samfélagslegi ávinningur; hann snýst um sjálfsmynd samfélagsins. Við erum svona samfélag sem heiðrar sína listamenn, sem velur þá listamenn sem við teljum hverju sinni að hafi haft mikil áhrif á líf okkar og menningu og séu þess verðir að við heiðrum þá.

Mér hefur heyrst í umræðum hér um þetta frumvarp að hv. þingmaður sé sammála því að það sé rétt að heiðra listamenn sem hafa skarað fram úr eða haft sérstök áhrif á þróun listanna með sínum ferli en hann hafi meiri spurningar um hvernig það fyrirkomulag sé. Ég get að sumu leyti tekið undir það að það er umdeilanlegt fyrirkomulag að Alþingi geri þetta með þeim hætti sem verið hefur. Ég hef sjálfur setið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og tekið þátt í því að heiðra listamenn með þessum hætti og get vottað að það er með því ánægjulegasta sem ég hef tekið þátt í að gera hér á þinginu vegna þess að það voru listamenn sem ég taldi vera mjög verðuga þess að hljóta þennan heiður og var þá gaman að fá að eiga hlut í því að heiðra fólk fyrir ævistarf sitt og framlag til íslenskrar menningar. En í því starfi áttaði ég mig á því að það eru vissir vankantar á því að við þingmenn séum að véla um þetta af vissum vanefnum. Við fengum álitsgerð frá sérfræðingum en það var alveg undir hælinn lagt hvort sú greinargerð fékk nokkurn hljómgrunn meðal þingmanna sem voru bara að nefna sína uppáhaldslistamenn og tala um af hverju við heiðrum ekki frekar þennan og hinn. Þetta var ekki mjög markviss vinna og hún var ekki fagleg. Að fenginni þessari reynslu hef ég svolítið komist á þá skoðun að það sé frekar rétt að fela þessa vinnu fagmönnum, að við fáum vandaða vinnu fagmanna við að hjálpa okkur við að heiðra þessa listamenn.

Ég held að mér sé óhætt að segja að alls staðar í þeim löndum sem við berum okkur saman við tíðkast það að einhverjir listamenn séu teknir sérstaklega út úr og heiðraðir fyrir sitt framlag sem þykir alveg sérstakt. Oft eru svona akademíur og stundum er það þannig að akademían sjálf tekur inn listamenn og það fer eftir einhverjum sérstökum reglum. Það er allur gangur á þessu og það væri skrýtið ef það kæmi frétt um það frá Íslandi, af því að nú tíðkast fréttir frá Íslandi í erlendum fjölmiðlum, að Íslendingar væru hættir að veita heiðurslaun listamanna. Það held ég að vina- og frændþjóðum okkar þætti skrýtið uppátæki. Þetta tíðkast alls staðar og snýst einfaldlega um að viðkomandi þjóð telur sig vera á ákveðnu menningarstigi.

Það er hins vegar svo að það má hugsa sér betri leið við að velja þessa viðkomandi listamenn en við verðum að finna þá leið og koma okkur saman um hver sú leið er og verðum að vera búin að ganga frá því hvernig sú leið verður áður en við höldum í þá vegferð að leggja niður heiðurslaun listamanna. Ég tel að þetta sé alveg öfug röð eins og hér er lagt upp með. Ég er smeykur um að dæmin sýni að ef eitthvað er einu sinni lagt niður er erfitt að koma því á fót aftur. Eins og þetta virðist hugsað er eins og þetta eigi að smádeyja út með þeim sem njóta þessara launa núna án þess að það komi fram í greinargerðinni hvað hv. flutningsmaður sér fyrir sér að komi í staðinn.

Ég er alveg til viðræðu um að þessu fyrirkomulagi verði breytt og það tekið úr höndum hinna pólitísku fulltrúa. Þó má segja að viss rök séu fyrir því að þingið hafi þetta með höndum vegna þess að við sem hér sitjum erum kjörin sem fulltrúar kjósenda og erum fulltrúar þjóðarinnar. Við erum þjóðkjörnir fulltrúar og það má segja að þetta sé ljúf skylda sem okkur er lögð á herðar. En ef við höldum því fyrirkomulagi að þjóðkjörnir fulltrúar haldi áfram að velja þessa listamenn þá verðum við að koma meiri skikki á það hvernig þeir eru valdir, að það sé bæði meiri festa og faglegar að því staðið.