154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:07]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að taka upp hér á Alþingi umræðu um málefni eldra fólks. Mig langar að byrja á hagsmunafulltrúa eldra fólks. Ég setti í gang starfshóp um gerð frumvarps um það mál en það var einfaldlega mat hópsins, og í honum voru fulltrúar Alzheimersamtakanna og fulltrúar Landssambands eldri borgara, að þar sem ekki liggja fyrir formlegar greiningar á því hvar skórinn kreppir helst varðandi ráðgjöf og upplýsingar til eldra fólks þá væri skynsamlegra að setja á fót tilraunaverkefni til tveggja til þriggja ára um sérstaka ráðgjafarþjónustu fyrir eldra fólk og safna þar gögnum frekar en að stofna til embættis hagsmunafulltrúa eldra fólks. Þessum ráðleggingum fylgdi ég og tilraunaverkefnið er komið í gang, verkefnið Gott að eldast, þannig að ég skil ekki alveg þessa gagnrýni hv. þingmanns sem virðist eingöngu sprottin upp úr því að ekki er farið nákvæmlega eftir hennar nefi, nefi hv. þm. Ingu Sæland, sem gengur gegn ráðleggingu starfshópsins sem í sátu sérfræðingar og fulltrúar eldra fólks. Ég ætla hins vegar að fylgja ráðleggingum hópsins.

Hæstv. forseti. Það hefur náðst umtalsverður árangur í að bæta kjör eldra fólks á síðustu árum og auðvitað áratugum. Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað frá maí síðastliðnum voru um 6% eldra fólks undir lágtekjumörkum árið 2020 en voru tæp 19% 20 árum fyrr. Þá hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna eldra fólks hækkað um 30% frá árinu 2013. Í úttektinni Hagir eldra borgara frá árinu 2021 kemur síðan fram að hlutfall þeirra sem oft hafa fjárhagsáhyggjur í hópi eldra fólks hefur farið úr 12% í 5% á síðustu árum. Þetta er allt saman jákvæð þróun þrátt fyrir hávær orð hv. þm. Ingu Sæland hér í pontu áðan.

Hér skiptir miklu máli að það hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að bæta kjör eldra fólks, sveigjanleiki verið aukinn í töku lífeyris og til atvinnuþátttöku, og ég nefni auðvitað sérstaklega breytinguna á greiðslukerfi ellilífeyris á árinu 2017 en þá urðu verulegar kjarabætur fyrir eldra fólk, einkum það sem er í lægri tekjutíundunum. Þá vil ég nefna að árið 2020 voru sett lög um félagslegan viðbótarstuðning til að tryggja framfærslu eldra fólks sem hefur takmörkuð réttindi í almannatryggingum. Þetta hefur sérstaklega nýst innflytjendum. Síðan eru ýmsar breytingar varðandi sveigjanleika í töku lífeyris sem ég ætla ekki að fara í hérna en ég veit að hv. þingmanni er kunnugt um. Sérstakt frítekjumark atvinnutekna var hækkað 1. janúar 2022 úr 100.000 kr. í 200.000 kr. til að hvetja til frekari atvinnuþátttöku. Þá hafa húsaleigubætur hækkað um 25% á milli áranna 2022 og 2023 en þær eru tekjutengdar þannig að því lægri tekjur, því hærri bætur.

Ég vil meina að það sé óhætt að fullyrða að mjög margt eldra fólk á Íslandi hefur það gott, sem betur fer, og það sýna líka gögnin okkur. Af þessum 11.000 í neðstu þremur tekjutíundunum verðum við líka að taka inn í jöfnuna að þar er fólk sem er á hjúkrunarheimilum og þar er fólk sem á maka og hefur þess vegna hagræði af því að búa með viðkomandi. En það þýðir ekki að við eigum að slá slöku við þegar kemur að þeim sem lökust hafa kjörin og greiningar hafa sýnt að eldra fólk sem býr í leiguhúsnæði eða í skuldsettu eigin húsnæði er sá hópur sem þarf að ná betur utan um. Stjórnvöld vinna nú að tillögum til að bæta kjör þess eldra fólks sem lökust hefur kjörin.

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður ræðir hér um kjaragliðnun, þ.e. mun á lágmarkslaunum og óskertum greiðslum almannatrygginga. Þróun ellilífeyris til samanburðar við lágmarkslaun er auðvitað mismunandi eftir því hvort horft er til óskertra ellilífeyrisgreiðslna þeirra sem búa ein eða þeirra sem búa ekki ein. Þannig hefur óskertur ellilífeyrir þess sem býr einn haldist mjög svipaður lágmarkslaunum frá árinu 1999, stundum verið hærri en lágmarkslaun og stundum verið lægri, hann er nú um 6.000 kr. lægri. Sé hins vegar horft til óskerts lífeyris þess sem býr ekki einn þá hefur hann verið undir lágmarkslaunum frá árinu 1999 og það bil hefur aukist á undanförnum árum, sérstaklega vegna þess að mikilvægar krónutöluhækkanir lægstu launa hafa átt sér stað á almennum vinnumarkaði á undanförnum árum. En á móti hefur fólk hagræði af því að búa með öðrum.

Ég veit að hv. þingmaður deilir þeirri skoðun minni að við eigum að horfa mest til þeirra sem minnst hafa í samfélaginu og það er gert með því að horfa sérstaklega til þeirra í ellilífeyriskerfinu sem búa ein og óskertur ellilífeyrir þeirra sem búa ein er einmitt á svipuðu róli og lágmarkslaun í dag.