154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er dálítill skortur á sameiginlegum skilningi í þessum málaflokki. Ef við horfum á lífeyriskerfið eins og það er núna þá held ég að það sé svona almennur skilningur að það kerfi eigi í rauninni að duga fyrir framfærslu þegar fólk hefur yfir alla ævina greitt í lífeyrissjóð, að lífeyrisréttindin séu með þá framfærslu sem ríkið þarf þá almennt séð ekki að koma að. Það var áður þannig hins vegar að það var bara framfærsla ríkisins í gegnum tryggingar sem dekkaði þann hluta. Svo þegar lífeyrissjóðakerfinu var komið á átti þetta að vera einhvern veginn til jafns og til viðbótar við framfærslu almannatrygginga en hefur síðan þróast yfir í það að vera að koma alveg í staðinn. En það virðist vera mismunandi skilningur á því enn þá hvort kerfið sem var áður um að almannatryggingar væru í rauninni grunnurinn og allt sem kæmi í gegnum lífeyrissjóðakerfið væri ofan á það, og þar af leiðandi ekki með allar þessar skerðingar sem eru núna — það að það sé þessi mismunandi skilningur í gangi er dálítið vandamál. Við þurfum að leysa nákvæmlega þessar forsendur því að annars náum við aldrei að búa til kerfi sem virkar fyrir fólk, af því að við erum alltaf að rífast um það hvort ríkið eigi að koma með grunninn og lífeyrissjóðir ofan á eða hvort lífeyrissjóðakerfið, sem er verið að reyna að búa til, muni dekka framfærslu fólks þegar á efri ár kemur. Mér finnst vanta að við bara klárum þá umræðu og það sé skýrt hvernig kerfið á að virka því að það gerir það ekki núna og það er vandamál.