154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:28]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta þessa umræðu til að fylgja eftir fyrirspurn sem Viðar Eggertsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram á síðasta þingi og hefur enn ekki verið svarað og varðar vasapeningafyrirkomulag. Vasapeningafyrirkomulagið felur í sér að íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum eru að hluta til sviptir fjárráðum og í stað þess að þeir greiði húsaleigu og annan sérstakan kostnað sem fylgir almennu heimilishaldi er íbúum hjúkrunarheimila skammtaður vasapeningur eins og krökkum og unglingum. Fjárhagslegt sjálfstæði eldra fólks skerðist þannig verulega við flutning á hjúkrunarheimili. Landssamband eldri borgara hefur lengi barist fyrir því að vasapeningafyrirkomulagið verði afnumið og íbúar hjúkrunarheimila fái aukið val um það hvernig þeir ráðstafa fjármunum sínum.

Núverandi fyrirkomulag hefur líka verið gagnrýnt fyrir það að ekki er ljóst í hvað fjármunir íbúa fara. Sjálfsagt og eðlilegt er að íbúar greiði fyrir kostnað vegna húsnæðis og fæðis en um heilbrigðisþjónustu og lyfjakostnað gilda aðrar reglur og það verður að vera alveg á tæru að íbúar á hjúkrunarheimilum greiði ekki hærra gjald fyrir þessa þjónustu en þeim ber. En eins og staðan er í dag þá er ómögulegt fyrir íbúa að sjá hvernig gjaldið skiptist.

Mig langar að endurtaka spurningar Viðars Eggertssonar hér, sem ráðuneytið hefur enn ekki treyst sér til að svara, og spyrja hæstv. ráðherra út í afstöðu hans til breytinga á fyrirkomulagi greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum, m.a. til afnáms vasapeningakerfisins. Þá spyr ég hver sé staðan á vinnu starfshóps um breytt greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum sem skipaður var vorið 2016 af Eygló Harðardóttur, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra.