154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:31]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Endurskoðun lífeyrissjóða- og almannatryggingakerfa með tilliti til eldra fólks er löngu tímabær. Þannig ættu málefni aldraðra og málefni öryrkja til að mynda að vera aðgreind og vera tveir aðskildir málaflokkar.

Margt gott hefur áunnist í málefnum eldra fólks á undanförnum árum. Pétur heitinn Blöndal leiddi nefnd sem hóf störf fyrir um áratug og afraksturinn var verulegar breytingar. Bótaflokkar voru sameinaðir, framfærsluviðmið hækkuð og króna á móti krónu skerðing fyrir eldra fólk var afnumin. Niðurstaðan var ein mesta kjarabót eldra fólks í áratugi. Frítekjumark vaxtatekna hefur verið hækkað verulega og þeim eldri borgurum sem greiða fjármagnstekjuskatt hefur fækkað mikið á undanförnum árum.

Útgjöld ríkissjóðs í málefni aldraðra hafa aukist um tugi milljarða undanfarin ár og kjör eldri borgara hafa batnað mikið, hvort sem við lítum til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skuldastöðu. En það þýðir ekki að við eigum ekki að gera betur. Við getum alltaf gert betur. Það á sérstaklega við um þann hóp sem lýkur ekki starfsævinni með nægilega rík lífeyrisréttindi. Það er óásættanlegt að eldra fólk búi hér við bág kjör, fólkið sem byggði upp samfélagið og auðveldaði okkur og þeim sem á eftir koma lífsbaráttuna.

Virðulegi forseti. Við eigum því m.a. að auka svigrúm eldra fólks til atvinnuþátttöku án umtalsverðra skerðinga og halda áfram að draga úr skerðingu ellilífeyris vegna tekna. Starfslok ættu í meiri mæli að verða sveigjanleg þannig að eldra fólk eigi möguleika á að starfa hvort sem er í fullu starfi eða hlutastarfi eins og áhugi þess og færni segir til um. Fjárhagslegt sjálfstæði eldra fólks eru grundvallarréttindi og þessar aðgerðir hafa fjölmörg jákvæð áhrif, ekki bara á velferð heldur líka á hagvöxt og ég þakka framsögumanni og frumkvæðismanni, hv. þm. Ingu Sæland, kærlega fyrir framtakið.