154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:42]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa ágætu umræðu hér. Mig langar að byrja á því að segja að almannatryggingar eru hugsaðar sem trygging ríkisins fyrir afkomu fólks sem er á örorku eða ellilífeyri. Við eigum að mínu mati að beina þeim stuðningi með sanngjörnum hætti þannig að þau sem minnst hafa fái meiri stuðning en þau sem meira hafa. Ég sé ekki betur en að hv. þm. Inga Sæland vilji hins vegar koma á eins konar borgaralaunum, skatta- og skerðingarlaust, og því er ég einfaldlega ósammála því að fólk sem getur unnið fyrir sér að hluta eða nýtur annarra réttinda eða greiðsla en frá ríkinu þarf einfaldlega ekki eins háar greiðslur frá ríkinu. Hvers vegna ættum við að láta ellilífeyrisþega sem er með yfir 1 millj. kr. á mánuði í tekjur fá jafn háar greiðslur úr almannasjóðum eins og þann sem hefur engan lífeyrissjóð eða engar tekjur? (IngS: Þetta er bull.) Er það jafnaðarstefna? Er það stefna um sanngjarnt og réttlátt félagslegt velferðarkerfi? Nei, það er ekki svo.

Hér talar hv. þingmaður um að það séu bara stýrihópar og aðgerðahópar í gangi en það komi engar aðgerðir. Það er rangt. (IngS: Hvar eru frumvörpin?) Ég vil minna á að þessi ríkisstjórn hefur nú í tvígang hækkað örorku og ellilífeyri á miðju ári til að verja kaupmátt þessara hópa gegn hárri verðbólgu. Þessi ríkisstjórn hefur nú í tvígang hækkað húsaleigubætur, alls um 25% á síðasta eina og hálfa ári, og þá kom ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á þriggja þrepa skattkerfi sem nýtist hverjum best, hv. þingmaður? (IngS: Mér …) Jú, þeim sem minnst hafa kjörin.

Hér er nefnt ýmislegt sem lýtur að þjónustu við eldra fólk og ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir að draga það fram því að aðgerðaáætlunin Gott að eldast sem þingheimur samþykkti á síðasta vori er einmitt umbylting í þjónustu við eldra fólk, m.a. snýst hún um samþættingu á þjónustu í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu. En það er verk að vinna þegar kemur að þeim sem minnst hafa kjörin í hópi eldra fólks, undir það tek ég með hv. þingmönnum, og það er verkefni sem við þurfum að snúa okkur að. (Forseti hringir.) Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mun halda áfram að verja kjör þeirra sem minnst hafa í samfélaginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)