154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[13:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þetta frumvarp til þingsins vegna þess að þó að ég sé ósammála því sem er lagt til í þessu frumvarpi þá finnst mér mikilvægt að við ræðum þann ramma sem er slegið utan um listsköpun í landinu. Þetta frumvarp, þó ekki annað, verður þá tilefni til umræðu um þessa umgjörð. Ég er nefnilega hjartanlega sammála því sem kom fram í flutningsræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, það er tími kominn til að finna nýjar leiðir. Það er fátt sem við getum betur kallað barn síns tíma en akkúrat heiðurslaun listamanna. Þau stafa frá þeim tíma þegar rekstur ríkisins var í mikilli mýflugumynd miðað við það sem er í dag. Þótt fyrstu lögin um heiðurslaun séu frá árinu 1967 þá er sú framkvæmd að ráðstafa launum til fólks í gegnum fjárlög eitthvað sem stafar frá árdögum starfsemi í þessu húsi. Þá voru skólastjórar, ekkjur embættismanna og listamenn sett inn sem sérstök lína í fjárlög á hverju einasta ári. Þannig var rekstur ríkisins. Þetta var svo lítið umleikis miðað við það sem er í dag að það var hægt að tiltaka einstaklingana sem nutu launa frá ríkinu í fjárlögum. Síðan þróast samfélagið náttúrlega. Heiðurslaunin hafa ekki þróast mjög mikið. Þau eru samt eitthvað sem við þurfum að halda í. Það er kjarni þarna sem við þurfum að verja og megum endilega þróa áfram.

Þegar við fjöllum um starfsaðstæður listafólks hér á þingi þá ruglum við oft saman þessum tveimur kerfum utan um stuðning til listafólks sem mig langar aðeins að nefna, annars vegar heiðurslaunum, sem er bein launagreiðsla til 25 einstaklinga á ári sem við gætum kallað nokkurs konar borgaralaun til útvalins hóps listafólks og svo erum við hins vegar með starfslaun listamanna, sem er nokkurs konar nýsköpunarstyrkur og allt of lítill pottur miðað við þá ásókn og þá hugmyndaauðgi sem sækir í þá sjóði. En málið er að hvort tveggja, bæði þessi grunnframfærsla til lítils hóps og nýsköpunarstyrkir til fólks sem er að þróa áfram nýjar hugmyndir á listasviðinu, er eitthvað sem við getum fjárfest miklu meira í, samfélaginu til bóta.

Mig langar að rifja upp hugmynd sem var send til þingsins þegar lög um heiðurslaun voru endurskoðuð fyrir áratug vegna þess að mér þykir hún dálítið góð. Heiðurslaunin eru nefnilega ekki bara laun. Þetta snýst ekki bara um framfærslu, sem betur fer, forseti, því þau eru svo lág að ég reikna ekki með að nokkur þiggjandi heiðurslauna geti framfært sig á þeim. Þau snúast umfram allt um einhverja viðurkenningu, að við sem Alþingi sýnum fólki virðingu og heiður og gerum það með einhverjum áþreifanlegum hætti. En mér finnst dálítið leiðinlegt að eina verkfærið sem við eigum til þess sé að rétta fólki pening. Listafólk hefur svo miklu meira fram að færa en að geta bara tekið við vöndli af þúsundköllum frá ríkinu þegar okkur finnst þau hafa staðið sig vel og eiga skilið einhverja viðurkenningu starfa sinna. Þess vegna hef ég alltaf verið mjög hrifinn af þeirri hugmynd sem kom frá bandalagi íslenskra listamanna hér á 140. þingi þegar lögin voru endurskoðuð, sem snerist um að líta á hópinn sem nýtur heiðurslauna sem auðlind í sjálfu sér, sem hóp fólks sem auk þess að vera besta listafólk þjóðarinnar sé eðli máls samkvæmt kannski komið af léttasta skeiði, það er ekki að sinna föstum störfum jafn mikið og áður og hefur kannski bæði reynsluna og ráðrúmið til að ausa af reynslubrunni sínum í þágu okkar hinna.

Bandalag íslenskra listamanna lagði árið 2012 til að hópurinn yrði víkkaður út en samhliða því yrði eðli hans endurhugsað, að samhliða því að fjölga handhöfum heiðurslauna yrðu þeir handhafar þátttakendur í því sem bandalagið kallar akademíu, sem bandalagið nefnir nokkurs konar útvörð menningarinnar — ansi háfleygt en stundum má það. Þetta væri hópur sem kæmi saman mánaðarlega og ræddi saman um listina, menninguna og þjóðina og hefði frumkvæði að fyrirlestrum, efndi til málþinga og stæði hugsanlega fyrir viðurkenningum og verðlaunum sjálfur, vegna þess að fólkið sem á erindi inn á lista handhafa heiðurslauna listamanna er fólk sem hefur svo miklu meira til samfélagsins að gefa en bara það að vera á þeim lista.

Ég held að það væri ágætt fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar hún tekur þetta frumvarp hv. þm. Vilhjálms Árnasonar til athugunar að skoða hvort það megi ekki bara fara í þveröfuga átt við það sem þingmaðurinn leggur til, að í stað þess að leggja niður lög um heiðurslaun listamanna þá verði þau efld og það verði sett smá djús í þau, að það væri gerður einhver vettvangur til þess að okkar fremstu listamenn geti haldið áfram á efri árum að gefa til samfélagsins til að hjálpa okkur að þróa listir og menningu í landinu. Ég held að það færi vel á því að nefndin myndi skoða þetta, myndi jafnvel gera úr því eitthvert frumkvæðismál og horfa til þess að þegar lögunum var breytt árið 2012 var það með frumvarpi sem nefndin lagði fram. Þetta er nefnilega verkefni Alþingis. Við þurfum ekki að bíða eftir einhverjum ráðherra til að fá hugmyndir að úrbótum og breytingum á þessu. Hér er það Alþingi sem þarf að ákveða hvernig við viljum búa umgjörðina um þennan hóp.