154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

þjónusta vegna vímuefnavanda.

59. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni og hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir mikilvægt innlegg varðandi mikilvægi forvarna og áminningu um það að við kunnum að hafa sofnað á verðinum. Það er mikilvæg brýning. Gott innlegg frá hv. þm. Sigmari Guðmundssyni þar sem hann veltir upp og er með hugleiðingu um það af hverju tölur um dauðsföll í umferðinni valdi meiri usla og af hverju það sé ekki þjóðarátak vegna dauðsfalla fólks af völdum vímuefnasjúkdóma. Er það ekki einmitt viðhorfið til þessa sjúkdóms, fordómarnir sem valda því að við förum ekki í þjóðarátak í þessum efnum þrátt fyrir þessa mikilvægu viðhorfsbreytingu sem hefur þó átt sér stað? Mér finnst gott að hv. þingmaður hafi staðið hér og farið yfir það hversu erfiður sjúklingahópur þetta er því hann er það vissulega. Margfeldisáhrifin, eins og hv. þingmaður fór yfir, eru svo gríðarleg, áhrifanna gætir svo víða; fjölskyldurnar, samfélagið, dómskerfið og svo heldur þetta áfram og áfram að rúlla og hverri krónu sem er varið í þennan málaflokk er vel varið í fyrirbyggjandi aðgerðir. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir bendir á, og ég tek undir það, að vilji þingsins standi til þess að veittir séu meiri fjármunir til meðhöndlunar fíknisjúkdóma og mjög athyglisverð ábending hennar varðandi meðferðarúrræði erlendis. Síðan langaði mig að taka undir með hv. þingmanni sömuleiðis varðandi það að við leggjum áfram áherslu á skaðaminnkun og þar hefur hæstv. heilbrigðisráðherra tekið mjög mikilvæg skref á þessu kjörtímabili en hins vegar hlýtur meginmarkmiðið alltaf að vera, eins og með alla sjúkdóma, meðhöndlun sjúkdómsins. Eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson bendir á þá er það bara þannig, í tilfelli þessa sjúkdóms, að glugginn er opinn mjög stutt og þá er mikilvægt að grípa sjúklingana, að dyrnar séu ekki lokaðar þegar glugginn er opinn.

Annars langar mig bara að þakka aftur fyrir gríðarlega góða og þarfa umræðu hér í dag.