154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

áhrif launahækkana og hagnaðardrifin verðbólga.

[15:31]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Aðspurð í Silfrinu þann 23. október hvers vegna við næðum ekki tökum á verðbólgunni og hvað væri að í hagstjórninni svaraði fjármálaráðherra: Verðbólgan er há, m.a. vegna þess að við höfum einfaldlega hækkað laun umfram það sem er til skiptanna.

Hæstv. ráðherra fannst ekki ástæða til að ræða um nokkur mistök í hagstjórninni heldur beindi spjótum sínum strax að launafólki og verkalýðshreyfingunni. Nú er það staðreynd að bankarnir hafa hagnast um 60 milljarða það sem af er þessu ári og hagnaður þeirra stefnir í 80 milljarða á árinu, sem gerir um 219 milljónir á hverjum einasta degi allt árið um kring. Þetta fé kemur frá fólki sem í mjög mörgum tilfellum stendur ekki undir þessum auknu álögum en má samt ekki hækka tekjur sínar því að verðbólgan er því að kenna ef marka má orð hæstv. ráðherra.

Á sama tíma hafa útlán bankanna aukist um 114 milljarða á milli ára hjá tveimur af þremur bönkum. Engar hömlur hafa verið settar á útlán bankanna, en svona prenta þeir peninga og setja út í hagkerfið. Fátt er jafn þenslu- og verðbólguhvetjandi og peningaprentun í þessum mæli.

Hvert fyrirtækið á fætur öðru, auk bankanna, hefur skilað methagnaði á árinu. Tekjur Haga jukust t.d. 19% í fyrra með afkomuspá upp á 11 milljarða í hagnað og Festi, móðurfélag Krónunnar, Elko og N1, gaf fyrir skömmu út afkomutilkynningu og uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2023. Hagnaður á ársfjórðungnum var 1,8 milljarðar kr. og samkvæmt tilkynningu hefur afkoma samstæðunnar aukist um 16,2% frá sama tímabili á fyrra ári.

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort henni þyki þessar upplýsingar benda til að launahækkanir séu vandamálið, hvaðan hún hafi þær upplýsingar að launahækkanir séu vandamálið og hvaða gögn og rannsóknir liggi því að baki því, því að allt þetta sýnir með skýrum hætti fram á að við glímum við hagnaðardrifna verðbólgu. Og þar sem það er staðreynd að kostnaður fyrirtækja vegna hærri vaxta hefur aukist um a.m.k. 105 milljarða á sama tíma og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafa ekki kostað nema um 74 milljarða, (Forseti hringir.) hvert heldur fjármálaráðherra þá að fyrirtækin velti auknum kostnaði vegna vaxtahækkana (Forseti hringir.) og ættu háir og verðbólguhvetjandi vextir ekki að valda henni meiri áhyggjum en launahækkanir til þeirra sem þurfa þrátt fyrir allt að eiga í sig og á?