154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

áhrif launahækkana og hagnaðardrifin verðbólga.

[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég bara nefni aftur að það eru ýmsar ástæður fyrir því að verðbólgan hefur þróast eins og hún hefur þróast. Við vitum öll, ef við bara lítum á staðreyndir málsins með yfirveguðum hætti, hvað við þurfum að gera sem samfélag til að ná tökum á verðbólgunni. Það er enginn einn aðili sem gerir það og leysir vandann fyrir okkur hin. Þetta er sameiginlegt verkefni og við þurfum að ganga í takt og það á við um alla. Það á við um atvinnurekendur, það á við um verkalýðshreyfinguna, það á við um okkur hér sem förum með fjárveitingavaldið, það á við um Seðlabankann o.s.frv.

Það er hægt að spyrja: Er launakostnaður á Íslandi hár? Hann er það. Hann er nánast hvergi annars staðar eins hár. Við hljótum að geta sammælst um þá staðreynd að launakostnaður á Íslandi er hár. Er jöfnun almenn þegar kemur að tekjum? Ja, sú mesta innan OECD. Það er ýmislegt sem betur má fara í íslensku samfélagi (Forseti hringir.) en það er ekki þannig að íslenskt samfélag sé einhvern veginn orðið þannig að það sé veruleikafirrt eða annað. Það blasir við okkur hvert verkefnið er. (Forseti hringir.) Við getum leyst það, við gerum það bara saman og það gengur ekki ef við bendum á næsta mann og engan annan.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir bæði hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)