154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

réttur eftirlifandi foreldris til sorgarleyfis.

333. mál
[17:37]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir að taka þetta mál upp hér og fyrir þessa góðu umræðu. Ég held að við séum bara einfaldlega sammála um að það þarf að taka frekari skref í þessum málum. Við erum í rauninni að tala um tvennt hérna. Það er annars vegar þegar foreldri fellur frá fjölskyldu sinni þegar barn er undir 18 ára aldri og svo þetta sem samtökin Gleym mér ei hafa bent á. Spurningin er kannski, alla vega eins og ég sé þetta fyrir mér og vinnuna í ráðuneytinu, að þegar við erum búin að greina aðeins betur hvað mismunandi þættir þýða, hvað þeir ná utan um margt fólk, hver kostnaðurinn er o.s.frv. þá getum við betur áttað okkur á því hvaða skref við getum næst tekið. En ég held að við séum sammála um að það sé mikilvægt að taka þau skref.

Það er ómögulegt fyrir mann eins og mig, svo að ég fari nú bara niður á persónulegu nóturnar, sem hef verið það heppin að hafa ekki lent í neinu sem þessu að setja sig inn í þær aðstæður sem fólk er í þegar um missi sem þennan er að ræða. Það að við séum að þróa velferðarkerfið okkar í þá átt að grípa líka þessa einstaklinga og ekki síst með þeim sveigjanleika sem er innbyggður inn í lögin — þ.e. þú getur dreift sorgarleyfinu á talsvert langt tímabil, þú getur svolítið stýrt því sjálf eða sjálfur á hvaða tímapunkti viltu taka þér leyfi. Við erum svo misjöfn og sum okkar bregðast kannski þannig við að við viljum vera í vinnunni, a.m.k. að hluta í einhvern ákveðinn tíma, og síðan þá að geta dregið okkur aðeins meira frá vinnu til að jafna okkur og takast á við breyttar aðstæður. Þannig að ég segi bara kærar þakkir aftur, hv. þingmaður, og vonandi getum við séð einhver skref verða að veruleika sem fyrst.