154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hér um land í eigu ríkisins í Reykjanesbæ og þá sérstaklega land þar sem áformað er að byggja upp íbúðarhúsnæði næstu árin, í Ásbrúarhverfi. Sú uppbygging er jákvæð því mikilvægt er að tryggja aukið framboð íbúða eins og markmið rammasamnings ríkis og sveitarfélaga gerir ráð fyrir, en því fylgja líka áskoranir þar sem mikilvægt er að tryggja uppbyggingu innviða samhliða íbúafjölgun sem á sér enga hliðstæðu. Það er umhugsunarvert að ríkið eigi mikið magn lands og lóða innan sveitarfélags, selji byggingarrétt á þeim og tryggi sér tekjuskapandi, öruggt umhverfi til frambúðar í formi lóðarleigu og taki svo ekki þátt í að byggja upp innviði sem íbúar þurfa að nýta sér en það eru fjárfestingar sem sveitarfélög þurfa að leggja marga milljarða í að byggja upp samhliða því að íbúum fjölgar.

Ljóst er að mörg hundruð íbúðir munu rísa á land í eigu ríkisins á næstu árum því umtalsvert magn þess er ætlað fyrir íbúðarhúsnæði og gert er ráð fyrir að íbúafjöldi í hverfinu sem nú telur 5.000 manns muni a.m.k. tvöfaldast. Það er því í mínum huga ljóst að ríkið verður að leggja sín lóð á vogarskálarnar og tryggja að sveitarfélagið þurfi ekki að fara í dýrar lántökur til að tryggja íbúum sem búa í húsnæði á lóðum ríkisins aðgang að sjálfsagðri grunnþjónustu.

Ríkið á einnig land á miðsvæði sveitarfélagsins sem er samfélaginu mikilvægt þegar kemur að þróun nýrra svæða, t.d. fyrir verslun og þjónustu. Þegar svo ber undir er að mínu mati ekki ásættanlegt að ríkið geti seinkað verulega eða hamlað að öllu leyti uppbyggingu innan sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja til enn meiri samvinnu ríkis og sveitarfélaga í samskiptum, skipulagi og innviðauppbyggingu þegar kemur að landi og lóðum innan sveitarfélaga sem eru í eigu ríkisins og ríkið hefur öruggar tekjur af til framtíðar.