154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar við þetta tækifæri að vekja athygli á grein sem Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli, skrifaði í Bændablaðið sem kom út fyrir helgi. Báknið vex, kom nú upp í hugann.

Þetta er ekki nýtilkomið. Það sem Oddný Anna var í þessari grein að benda á voru starfsskilyrði skelræktar á Ísland. Hún vísaði þar í lög sem voru sett 2011 sem þáverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði að ætti að kalla lög um bann við skeldýrarækt, slíkar væru starfsaðstæðurnar. Í dag ræktar enginn bláskel til sölu á markaði en þegar lögin voru sett voru þeir 17. Það er mat sem liggur fyrir um að að núvirði væru líklegar útflutningstekjur af þessari starfsemi um 4 milljarðar á ári og sjálfbærari og náttúrulegri verður ræktun varla heldur en að henda kaðli út í sjó og bíða eftir því að skel taki að vaxa á honum.

Þetta er hlutur sem við verðum að hafa í huga hér, þingmenn. Stillum regluverkið ekki þannig af og leyfum ekki þannig gullhúðun eða blýhúðun regluverks, hvort hugtakið sem við notum, að það kæfi alla framkvæmdagleði og dugnað í samfélaginu. Það er það sem gerist þegar svona er haldið á málum.

Ég ætla að leyfa mér hér, með leyfi forseta, að lesa upp niðurlagsorð greinar Oddnýjar Önnu Björnsdóttur í Bændablaðinu síðasta þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðamenn þjóðarinnar þreytast ekki á því að tala um sjálfbærni og fæðuöryggi; að við séum matvælaþjóð sem eigi að vera leiðandi í heiminum á því sviði.

Á sama tíma setja þeir matvælaframleiðslu þvílíkar skorður að í greinum eins og skeldýrarækt er meirihluti skelfisks hér á landi innfluttur, þrátt fyrir að á Íslandi séu fullkomnar aðstæður til slíkrar starfsemi og ræktunin ein sú umhverfisvænasta og sjálfbærasta matvælaframleiðsla sem um getur.“

Ég vil bara nefna þetta hér og brýna okkur til þess, ágætu þingmenn, (Forseti hringir.) að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar kemur að því að samþykkja og heimila gullhúðun (Forseti hringir.) í lagasetningu.