154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

450. mál
[15:48]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011. Frumvarpið felur í sér minni háttar breytingar á þeim úthlutunarreglum sem gilda um flutningsjöfnunarstyrki sem veittir eru á grundvelli laganna. Styrkjunum, sem ætlað er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, var komið á með setningu laga um svæðisbundna flutningsjöfnun sem tóku gildi 1. janúar 2012. Var markmiðið að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa því við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar. Samkvæmt lögunum hefur Byggðastofnun umsjón með afgreiðslu flutningsjöfnunarstyrkja, leggur mat á umsóknir og kallar eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru. Frekari upplýsingar um svæðisbundna flutningsjöfnun er að finna í skýrslu innviðaráðherra sem gefin er Alþingi ár hvert um framkvæmd og þróun svæðisbundinnar flutningsjöfnunar.

Í skýrslu ráðherra um svæðisbundna flutningsjöfnun frá árinu 2022 er rakið að fjárheimildir ársins til veitingar styrkja voru 166,6 millj. kr. Þegar samþykktar umsóknir eru hærri en fjárveiting ársins að frádregnum kostnaði Byggðastofnunar eru styrkveitingar lækkaðar hlutfallslega í samræmi við það, sbr. 4. mgr. 6. gr. laganna. Samþykktar styrkumsóknir voru 242,4 millj. kr. á árinu 2022 og var útgreiðsluhlutfall því 67,4%. Í skýrslunni eru styrkveitingar jafnframt flokkaðar nánar, m.a. eftir atvinnugreinum og landsvæðum.

Tilefni þessa máls má rekja til þess að í þjónustukönnun innviðaráðuneytisins og stofnana á vegum þess sem fram fór haustið 2022 barst ráðuneytinu ábending um að flutningsjöfnunarstyrkir sem veittir eru á grundvelli laganna skiluðu sér ekki með nægilega sanngjörnum hætti til minni framleiðenda. Ráðuneytið leitaði því eftir afstöðu Byggðastofnunar og í svari stofnunarinnar sagði að borið hefði á gagnrýni frá umsækjendum um að lægstu styrkir væru of lágir en þeir sem sækja um lægstu styrkina eru almennt þeir sem standa höllustum fæti vegna smæðar sinnar. Hætti þeir að sækja um muni styrkfjárhæðir til stærri aðila aukast og samkeppnisstaða minni aðila því versna sem því næmi. Benti stofnunin á að í skýrslum ráðherra undanfarin ár um framkvæmd flutningsjöfnunarstyrkja komi fram að tíu stærstu styrkhafar hafi fengið um og yfir 50% af útgreiddum styrkjum. Lagði Byggðastofnun til að gerðar yrðu breytingar á úthlutunarreglum svæðisbundinnar flutningsjöfnunar til að auka styrkveitingar til minni framleiðenda og að reglurnar endurspegli betur hvernig framkvæmd vöruflutninga er háttað fyrir minni framleiðendur á landsbyggðinni.

Í frumvarpi þessu er horft til tillagna Byggðastofnunar og lagðar eru til tvær breytingar á úthlutunarreglum svæðisbundinnar flutningsjöfnunar sem hafa það markmið að auka vægi minni framleiðenda við úthlutun styrkjanna. Annars vegar er lagt til að endurgreiðsluhlutfall flutningskostnaðar verði hækkað þannig að framleiðendur á svæði þar sem sérstaklega er þörf á byggðastuðningi og er nánar skilgreint í lögunum geti sótt um 20% endurgreiðslu af flutningskostnaði ef lengd ferðar er 150–390 km og 30% endurgreiðslu ef ferð er lengri en 390 km. Framleiðendum á öðrum svæðum verði gert kleift að sækja um 10% endurgreiðslu ef lengd ferðar er 150–390 km en 15% endurgreiðslu ef ferð er lengri en 390 km. Hins vegar er lagt til að styrkveitingar verði ekki lækkaðar hlutfallslega á samþykktum umsóknum sem eru lægri en 1,25% af heildarfjárveitingu hvers árs.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á ríkissjóð en samfélagslegur ávinningur breytinganna felur fyrst og fremst í sér aukinn stuðning til minni framleiðenda á landsbyggðinni. Sem dæmi um áhrif breytinganna þá hefðu 48 umsóknir fengið fullan styrk ef 1,25% markið hefði verið til staðar í úthlutun ársins 2021 en 19 umsóknir hefðu fengið lækkun. Umsóknir þeirra fyrirtækja sem myndu fá lækkun voru árið 2022 að fjárhæð 3,3–28,9 millj. kr. þar sem hver umsókn var að meðaltali 10 millj. kr. og miðgildi 6,9 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.