154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

450. mál
[15:59]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara aðeins í dýpkun á þessu mikilvæga máli og ég tek bara undir að það er mikilvægt að geta komið til móts við minni aðila og það er auðvitað tilgangur þessarar breytingar, að færa svolítið þungann yfir á smærri aðila. Eins og kom fram í mínu fyrra andsvari er stærsti hlutinn að fara einmitt í kjördæmi hv. þingmanns, þ.e. á Norðurland eystra og Vestfirði, 46% umsókna eru frá Norðurlandi eystra en 20% frá Vestfjörðum. Það er þannig að 50% fara til fiskafurða, 20% í grænmeti, aðrar afurðir 10% og minna, eins og drykkjarvörur, kjötafurðir og önnur matvælaframleiðsla. En það er líka rétt að geta þess að gildistími þessara laga, þessarar svæðisbundnu flutningsjöfnunar, er til loka árs 2025. Það má því búast við að regluverkið verði tekið til frekari skoðunar og ávinningur af þessu áður en að þeim tíma kemur. Ég vil því bara hvetja þingmanninn og þingheim til að setja sig aðeins inn í það til að geta hjálpað til við þá endurskoðun, af því að ég er sammála þingmanninum, þetta er mikilvægt fyrir minni aðilana og þess vegna held ég að þessi breyting, ef af verður, sé mjög góð.