154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:23]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir sína framsögu í þessu máli, að flytja þetta mál. Það er margt mjög áhugavert sem kemur fram í þessari tillögu. Það er t.d. mikið talað um stöðuna fyrir utan höfuðborgarsvæðið, stöðuna á landsbyggðinni. Málið er bara að margt sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu er nú þegar í vinnslu í ráðuneytinu. Spurning mín er: Var þingmaðurinn búin að skoða þau mál sem eru í gangi í heilbrigðisráðuneytinu? Ástæðan fyrir að ég nefni það er nú bara, eins og hún sagði sjálf áðan, að margt af þessu tekur mjög langan tíma og þetta er komið í farveg. Mig langar að nefna hérna eitt sérstakt dæmi: Það var starfshópur sem skilaði tillögum til jöfnunar á aðgengi að sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði, óháð búsetu. Ef maður fer í gegnum þetta eru t.d. ívilnanirnar nefndar og þær eru tvenns konar. Þær komu sem sagt í gegnum Menntasjóðinn, þegar hann kom fram á síðasta kjörtímabili, frá Lilju Alfreðsdóttur þegar hún var menntamálaráðherra. Þar er ein sérstök ívilnun vegna námsgreina. Þá er það eins og með læknaskort að læknanemar fá sérstaka ívilnun þegar þeir hafa lokið námi en það getur líka verið ákveðin starfsstétt á ákveðnum svæðum. Mig langar að nefna sem dæmi að þegar vantar hjúkrunarfræðing í litlu sveitarfélögunum þá geta þeir sótt um að fá ívilnun. Þetta er sem sagt í vinnslu. Fyrsta skýrslan sem vinnur að þessu er komin. Það er verið að vinna þetta áfram með Byggðastofnun til að skoða svona mál, til að koma fram með að það verði sérstök ívilnun fyrir starfsstéttir á ákveðnum svæðum á landsbyggðinni. Af því að það er talað sérstaklega um það hér og lagt til að námslán lækna sem ráða sig til lengri tíma á svæðum þar sem læknaskortur er viðvarandi verði felld niður og niðurfellingin geti náð til hluta lána eða námslána að fullu leyti, þá er það í vinnslu.