154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er auðvitað margt sem er í vinnslu í ráðuneytinu, við gerum ekki athugasemdir við það. Við erum hins vegar á þeim stað að þessi ríkisstjórn er búin að sitja í að verða sex ár og á einhverjum tímapunkti þarf líka aðeins að ýta við hlutunum. Ég nefni hér að margir þeir þættir sem við erum að leggja áherslu á, ég tek t.d. sérnám í héraðslækningum — já, þetta var lagt fram á sínum tíma en svo var þessu ýtt út af borðinu af alls konar ástæðum. Það eru aðrir þættir hér, til að mynda fjarlæknaþjónusta. Það hefur verið ályktað um fjöldann allan af þessum þáttum en vandinn hefur oftar en ekki verið skortur á fjármagni.

Við vorum síðast í morgun, eins og ég nefndi áðan í ræðu minni, að ræða við aðila Landspítalans. Það eru ýmis loforð og þættir sem eru í vinnslu en það hefur ekki verið tryggð fjármögnun á þessum verkefnum.

Ég get alveg tekið undir að það hefur verið farið í ákveðnar leiðir í umræðunni um niðurfellingu námslána. Við erum þá bara með þessari þingsályktunartillögu að ýta enn frekar eftir því og sýna að við höfum áhuga á að taka undir þetta.

En það eru aðrir þættir þarna sem ég vil vekja athygli á, til að mynda fjármögnunin á fjölgun læknanema í læknadeild Háskóla Íslands. Sú fjármögnun liggur ekki fyrir í núverandi fjármálaáætlun. Það liggur heldur ekki fyrir, eins og ég segi, almenn fjármögnun á sérnáminu, eins og kom til að mynda fram í umræðu við Landspítalann í morgun, þar sem hún er ekki eyrnamerkt þarna inn. Þannig að í þessu samhengi snýr þetta líka að því að við ýtum við ríkisstjórninni og sýnum að við erum tilbúin að leggja fjármagn að veði á bak við svona þingsályktunartillögu. Eins og hv. þm. Inga Sæland spurðist fyrir um áðan þá er líka fjármögnunaráætlun hjá okkur og það hefur oft vantað upp á hjá þessari hæstv. ríkisstjórn. Það hefur vantað fjármögnunina á bak við þessa þætti.

Þá vil ég líka nefna þriðja þáttinn hérna, og ég set það bara sem hvatningu til ríkisstjórnarinnar, að taka til í húsnæðismálum og hvernig farið er um í eignaumsýslunni í tengslum við fjármálaráðuneytið, af því að ég veit að húsnæði fyrir heilsugæsluna strandar m.a. bara á samtölum þar innan húss um að koma fólki í betra húsnæði.