154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:28]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir svarið. Gott að heyra að hluti af þessum tillögum sé bara til að styðja við þær tillögur sem eru í gangi í ráðuneytinu, af því þetta er mjög yfirgripsmikill málaflokkur og margt af þessu tekur gríðarlega langan tíma. Ég met það sem svo að það hafi kannski bara ekkert verið rætt við ráðuneytið hvort sumar af þessum hugmyndum séu í gangi, af því að margt af þeirri undirbúningsvinnu sem er í gangi hefur ekki komið fram. En þetta með ívilnunina er komið fram og við erum að vinna í fyrstu skrefunum varðandi það. Þessar ívilnanir eru risastórt skref í því að tryggja sérfræðiþjónustu á svæðum sem hefðu mögulega annars ekki efni á því að hafa þessa sérfræðiþjónustu. En þetta er bara eitt skref af mörgum sem við þurfum að taka og ég lít þá svo á að þið séu bara að styðja þá tillögu.