154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:30]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir framsöguna um þessa þingsályktunartillögu um þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi, sem tengist auðvitað í víðara samhengi orðræðu um heilbrigðismál og bara mjög mikilvægt að við ræðum heilbrigðismálin hér. En það sem ég velti fyrir mér á þessum tímapunkti er annars vegar: Telur hv. þingmaður að þarna séu atriði sem er almennt ágreiningur um á milli stjórnmálaflokkanna, einhverjar af þessum tillögum, eða er þetta eitthvað sem við gætum öll verið sammála um? Og svo hins vegar: Hvaða atriði eru það í þessum tillögum sem ekki er búið um í lögum, reglugerðum eða stefnu nú þegar?