154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:53]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að endurtaka mig frá síðasta þingi þegar ég deildi þeirri persónulegu reynslu sem ég varð fyrir fyrir fjórum, fimm árum síðan. Þá vaknaði ég um miðja nótt með verkjum og óttasleginn og fór beint upp á bráðadeild og var þar í þrjá tíma. Það var ágætlega tekið á móti manni þar af alls kyns ung-lingum, ungkandídötum og einhverjum ungverskum ungkandídat sem tók alla mögulega púlsa og blóðprufur og allt þetta sem leiddi til þess, þremur og hálfum tíma síðar, að ég var útskrifaður með eilítið of háar magasýrur og töflur til að taka við því. Ég var á leiðinni til útlanda tveimur dögum síðar með fjölskyldunni í löngu ákveðna ferð. Hefði ég ekki haft á þeim tíma heimilislækni þá væri ég ekki hér í dag. Hann hafði samband við mig að fyrra bragði daginn eftir og vildi taka mig í hið árlega heilsutékk eins og góðir heimilislæknar gera og hafa frumkvæði að, hafandi þekkt mig til margra ára og áratuga. Ég sagði honum af næturbrölti mínu á Borgarspítalanum, Landspítala, og hann sagði samstundis: Veistu, ég treysti ekki bráðamóttökunni. Komdu eins og skot strax niður á Domus Medica, ég hef aðgang þar í gegnum gömul sambönd föður míns, ég ætla að koma þér beint í ómun. Ég hafði farið í ómun að næturlagi þarna, en ekkert fannst. En það voru varla liðnar tvær mínútur af ómun á Domus Medica þegar mér var sagt: Þú ert ekki að fara neitt til útlanda, minn kæri, það er að springa í þér gallblaðran. Hefði ég farið, þá hefði ég komið heim í líkkistu.

Þetta er bara dæmisaga um mikilvægi þess að hafa, á hvaða aldri sem maður kann að vera, heimilislækni sem þekkir mann eða gerir sér far um að kynnast manni, annast um og greina mann. Það er sama hvort það er sálfræðingur eða geðlæknir eða einhver sem er að hjálpa þér, hann þarf að öðlast kynni og innsæi og með eðlisávísun sinni og þeirri reynslu sem þessi ágæti heimilislæknir bjó að bjargaði hann lífi mínu. Síðan gerðist það að hann náði þeim bannfærða aldri sem 70 árin eru. Þó að það sé verið að reyna að laða sjötuga lækna aftur til starfa, grátbiðja þá um að koma og leysa úr þeim vanda sem blasir við öllum, þá fá þeir að vísu ekki sömu kjör og aðrir læknar. Þeir eru skertir um framlag vinnuveitandans, ríkisins, samkvæmt þeim hugmyndum sem eru á lofti.

Ég ætla bara að lýsa því hér yfir nú öðru sinni, vonandi síðasta sinni, að það er gjörsamlega óþolandi í þessu moldríka velferðarsamfélagi sem við byggjum hér að það sé ekki hægt að bjóða fólki upp á heimilislækna hér eftir sem hingað til. Ég skráði mig eins og skot hér í heilsugæslu miðborgar til að fá heimilislækni. Já, þú færð hann á næsta ári, var sagt. Svo beið ég. Svo í fyrra var sagt: Ja, þetta verður á næsta ári. Í tvígang sagt á næsta ári eða eftir tvö ár. Svo fæ ég bara að vita: Því miður, það er bara enginn heimilislæknir í boði fyrir þig, minn kæri. Og mér er ekki skemmt. Ábyrgur fjölskyldumaður, faðir og eiginmaður á mínum viðkvæma aldri þarf að fá heimilislækni fyrir framlög sín til samfélagsins í öll þau ár sem raun ber vitni. Þetta er lágmarkskrafa. Allt hitt kemur þar á eftir hvað mig varðar og ég er tilbúinn að borga fyrir það sem þarf.

En það er algerlega óásættanlegt að við venjumst þessu, að vera bara með Heilsuveru í einhverju fjarspjalli og geta ekki náð sambandi við einhvern tiltekinn. Heilsuvera segir þér bara eftir einn eða tvo daga að hafa ekki áhyggjur og fá þér bara einhverjar pillur eða eitthvað. Það eru ekkert allir sem eru með það á valdi sínu að nota einhvern fjarstaddan rafrænan lækni til að bjarga lífi sínu, að benda sér á hvað eigi að gera.

Þá komum við að þessu sem hér er verið að reyna að verja og sagt að það sé svo erfitt að ná í lækna hér sem annars staðar. Vilji er allt sem þarf. Jú, jú, peningar líka. Við verðum bara að horfast í augu við það að við erum ekki lengur að þjónusta hér 270.000 manns eins og var þegar ég fékk heimilislækni á sínum tíma. Þetta er orðið 370.000 plús þessi tvær og hálfa milljón sem verður sú þriðja eftir nokkur misseri og fjórar og fimm. Heilsugæslan hefur viðurkennt það fyrir mér að hér hefur margfaldast álagið og eftirspurnin eftir heilsugæslu og öllu sem því fylgir, hvort sem það eru þeir 80.000 sem starfa hér í þjónustugeiranum, í ferðaþjónustu, byggingargeira og hverju öðru sem er.

Þetta þarf bara að leysa. Það er hægt að leysa þetta með erlendu fólki. Ef við getum notast við erlent þjónustufólk, erlenda afgreiðslumenn í verslunum og fyrirtækjum og erlenda menn í byggingariðnaði og erlenda aðila sem eru ófáanlegir hér meðal Íslendinga í dag þá er að horfast í augu við það að heilsugæslan — að einhverju leyti er þar verið að nýta erlenda krafta og ég held að 80% þjóðarinnar myndu geta sætt sig við enskumælandi heimilislækni. Það er sérstök borg á Indlandi sem fjöldaframleiðir heilbrigðisstarfsmenn, lækna og hjúkrunarkonur og aðra. Komi þeir fagnandi. Það þarf bara einhver að hafa fyrir því að sækja þá og borga þeim og koma þeim hér fyrir því að óbreyttu munum við láta venja okkur á það að heimilislæknirinn sé liðin tíð og við verðum bara að stóla á öppin og einhverja tölvupósta um hvað við gerum hugsanlega.

Ég vona að þessi reynslusaga mín, sem er ekkert skemmtileg, sögð hér í annað skipti, opni augu og eyru einhverra fyrir því að þetta er lífsnauðsynlegt í mörgum tilfellum. Við sáum það í Kveik að það eru 90 heilablóðföll og það eru vaxandi alls kyns undarleg dauðsföll og sjúkdómar og hvað það er. Við þurfum heimilislækna, og þó fyrr hefði verið, til að lækna þessa meinsemd í samfélaginu. Það er grunnstoð velferðarsamfélags, nútímalegs velferðarsamfélags, að hafa heilsukerfið í lagi og fullmannað.

Opnum augu okkar fyrir því að við sem þjóð sem tekur á móti jafn mörgum gestum og nýjum þegnum eins og við höfum verið að gera hér á örfáum árum vorum ekki undir þetta búin. Við erum að vakna upp við að það þarf að bregðast við og sérstaklega er áskorunin stór og alvarleg á landsbyggðinni þar sem samgöngur eru auðvitað ekki ásættanlegar allan ársins hring og þarf að stórbæta og fækka einbreiðum brúm og fjölga tvíbreiðum brúm á vegum og öðru slíku og skapa samfélag sem venjulegt fólk með langa menntun og menntaskuldir á bakinu getur sætt sig við að búa í, oft og tíðum ungt fólk sem er nýbyrjað að starfa. En það að höfuðborgin Reykjavík með sína, hvað 280.000 þegna, á Stór-Reykjavíkursvæðinu, skuli vera stödd á þessum stað — það er engin afsökun þarna. Það næst ekki í þetta fólk eða það eru ekki til peningar til að borga því. Klárum þetta mál í eitt skipti fyrir öll og ekki seinna en á þessu þingi.