154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

desemberuppbót til lífeyrisþega.

[10:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að tala um desemberuppbót og jólabónus við hæstv. forsætisráðherra. Það er mikið ákall úti í samfélaginu og mikill sársauki hjá mörgum núna sem aldrei fyrr. Síðustu tvenn jól urðu öryrkjar þess aðnjótandi að fá svokallaðan jólabónus frá stjórnvöldum og okkur hér á hinu háa Alþingi. Ég þarf ekki að tíunda bágindin þar sem aldrei hafa fleiri um árabil sótt til hjálparstofnana og óskað eftir aðstoð og hjálp. Við vitum öll hvert stefnir, það er ekki eins og það hafi farið leynt fyrir nokkrum manni. En góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ríkissjóður er að skila núna um 100 milljarða kr. umframgreiðslum í kassann sinn, umfram það sem ráð var fyrir gert. Þess vegna langar mig að velta því upp, þar sem við erum að fá bréf nánast daglega þar sem er ákall eftir því hvort við, löggjafinn, ætlum ekki að reyna að koma til móts við þetta fólk aftur núna fyrir jólin, hvort við erum ekki tilbúin að sýna mannúð gagnvart okkar eigin borgurum eins og við erum að sýna mannúð á hinu alþjóðlega sviði. Munum við gera okkar besta til þess að gera nákvæmlega það sama við þá sem eru jafnvel í enn bágari stöðu nú en þeir voru fyrir síðustu tvenn jól? Það má líka bæta við að inn í þennan hóp hljóta einnig að falla þeir einstaklingar, eldri borgarar, sem einungis hafa fengið og njóta berstrípaðra greiðslna almannatrygginga. Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Munt þú, hæstv. forsætisráðherra, beita þér fyrir því að þessir hópar, fátækasta fólkið okkar, fái að njóta þessarar betri afkomu ríkissjóðs heldur en nokkurn tímann við þorðum að vona, með því að koma því áleiðis að þetta fólk fái að njóta þessarar jólauppbótar núna fyrir jólin?