154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

viðbragðsáætlun og framkvæmdir vegna eldgoss.

[10:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að vekja máls á þeirri stöðu sem er á Reykjanesskaga og við getum vænst að verði áfram á Reykjanesskaga hvað sem gerist nákvæmlega núna á næstu dögum og næstu vikum. Allt frá í raun og veru fyrstu umbrotum á Reykjanesskaga var hafin vinna stjórnvalda með aðilum á svæðinu, bæði sveitarstjórnum og auðvitað viðbragðsaðilum, björgunarsveitum, almannavörnum og öðrum, til þess að kortleggja svæði. Það liggur því fyrir gríðarlega mikið magn af gögnum. Hv. þingmaður vísar hér í innviðahóp almannavarna sem hefur skilað af sér tillögum um mögulega varnargarða. Þær tillögur hafa verið í rýni hjá almannavörnum sem hyggjast gera tillögur til stjórnvalda núna á allra næstu dögum um hvað sé rétt að gera. Þær þarf auðvitað að vinna í mjög nánu samráði við okkar besta fólk á sviði jarðvísinda því að það skiptir auðvitað máli að þessir varnargarðar, verði af þeim, séu á réttum stöðum og þjóni því hlutverki sem þeim er ætlað að gera. Það er þegar verið að setja hæla í jörð þannig að það móti fyrir útlínum á þessum varnargörðum. Það er búið að undirbúa það að tryggja bæði efni og tæki. Hins vegar er það ekki enn komið á það stig að það liggi fyrir formleg tillaga frá almannavörnum en ég vænti þess að það liggi fyrir á allra næstu dögum og get farið betur yfir það í raun og veru líka af því að það eru ákveðnar heimildir sem fylgja eftir því hvaða viðbúnaðarstig er í gangi. Nú erum við til að mynda á ákveðnu viðbúnaðarstigi. Það getur verið fært upp á hættustig og það breytir þá aðeins þeim heimildum sem almannavarnir hafa til að grípa til slíkra aðgerða. Það sem hefur líka verið gert hefur verið að undirbúa mögulegar neyðarkyndistöðvar og varavatnsból. (Forseti hringir.) Ég kem svo aðeins nánar að náttúruhamfaratryggingum síðari spurningu hv. þingmanns í síðara svari.