154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

staða heyrnarskertra og skortur á heyrnarfræðingum.

[10:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Talið er að um 24.000 Íslendingar séu heyrnarskertir og þurfi inngrip af einhverju tagi, þurfi þjónustu við hæfi til að geta tekið að fullu þátt í samfélaginu og notið lífsgæða sem sjálfsögð geta talist. Og þeim mun fjölga á næstu árum um leið og aldurssamsetning þjóðarinnar tekur breytingum. Það er ekki aðeins hár aldur sem veldur heyrnarskerðingu, fólk sem hefur þurft að starfa við mikinn hávaða er oft með skerta heyrn. Eins geta sýkingar, slys og erfðir haft þar áhrif ásamt fleiru. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er sú stofnun á vegum ríkisins sem á að sinna þessari þjónustu við þá sem á henni þurfa að halda. Fjárframlög til stofnunarinnar hafa ekki aukist í takt við íbúafjölgun eða aldurssamsetningu þjóðarinnar. Vegna skorts á fjármagni hefur Heyrnar- og talmeinastöð þurft að fella niður aðstoð við landsbyggðina og getur heldur ekki sinnt heyrnarskertum börnum eins oft og mælst er til. Það tekur um tvö ár að bíða eftir heyrnarmælingu og svo tækjum í kjölfarið. Ríkið greiðir aðeins niður 60.000 kr. á hvert tæki sem kosta um 500.000–900.000 kr. og þessi tæki þarf að uppfæra á fjögurra til fimm ára fresti.

Ef heyrn hæstv. heilbrigðisráðherra væri farin að daprast að einhverju marki gæti hann ekki sinnt starfi sínu án þeirrar hjálpar sem heyrnartæki veita. Hæstv. ráðherra er ekki í sömu stöðu og efnaminna fólk sem getur ekki lagt út fyrir heyrnartækjum, hjálpartækjum sem geta komið í veg fyrir að fólk þurfi að færa sig til í starfi eða að það einangrist félagslega. Hefur hæstv. ráðherra í hyggju að bregðast við þessari alvarlegu stöðu með auknum fjárframlögum til stofnunarinnar og hærri endurgreiðslu vegna nauðsynlegra hjálpartækja?