154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

launaþróun á Íslandi.

[10:59]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Nýlega hlýddi ég á erindi Sigurðar Jóhannessonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um launaþróun á Íslandi á undanförnum áratugum. Hann sýndi fram á að launaþróun á Íslandi hefur verið með allt öðrum hætti en í nágrannalöndunum. Laun ófaglærðra hafa aukist langmest en minnst meðal þeirra sem mesta menntun hafa. Munurinn á launum þeirra minnst menntuðu og þeirra mest menntuðu er mestur á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin.

Hækkun launa ófaglærðra er að sjálfsögðu af hinu góða. Þessi þróun gefur þó tilefni til að hafa áhyggjur af þróun vinnumarkaðarins á Íslandi til lengri tíma og þeim tækifærum sem Ísland skapar íbúum landsins. Í fyrsta lagi minnkar hvatinn til að mennta sig til muna. Í öðru lagi hefur staða Íslands til að halda í menntað fólk veikst. Í alþjóðavæddum heimi verður freistandi að búa sér framtíð erlendis fremur en að nýta hæfileika sína hér heima. Gögn sýna að meðan Ísland flytur inn mikið af ófaglærðu fólki frá öðrum löndum Evrópu flytur menntað fólk úr landi. Þessi þróun veldur mér áhyggjum. Framleiðni þeirra atvinnugreina sem umfangsmestar hafa verið í innflutningi ófaglærðs vinnuafls er lítil og framleiðniaukning þeirra á undanförnum árum nær engin. Starfsfólk þessara fyrirtækja hefur hins vegar þörf fyrir þjónustu hins opinbera, heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, samgöngukerfisins o.s.frv.

Sú spurning vaknar hvernig ríkið ætlar að tryggja þjónustu í framtíðinni ef verðmætasköpun hvers einstaklings er lítil og vex ekki. Við sjáum nú þegar merki um þessi vandamál í íslenskum hagtölum. Því er oft haldið fram að hér sé mikill hagvöxtur, sem er vissulega rétt, en þjóðartekjur á mann hafa aukist lítið á undanförnum árum. Á undanförnum sjö árum hafa þær t.d. aukist um tæpt prósent á Íslandi en um 10% í Danmörku að raunvirði.

Forseti. Það er vissulega meiri súpa í pottinum en það er ekki meiri næring í hverri ausu. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún deili áhyggjum mínum af þessari þróun.