154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

launaþróun á Íslandi.

[11:04]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Það er athyglisvert að sjá að hún deilir skoðun fyrrv. hæstv. fjármálaráðherra, að það sé fyrst og fremst verkalýðshreyfingin sem beri ábyrgð á hagstjórn á Íslandi og ekki ríkisstjórnin. Ég held að við þurfum að horfa á alla myndina. Þessi vöxtur atvinnugreina sem fyrst og fremst þarfnast ófaglærðs starfsfólks eykur innlenda eftirspurn eftir vörum, þjónustu og húsnæði. Það leiðir til þenslu sem grefur undan samkeppnishæfni annarra atvinnugreina. Sérstaklega hef ég áhyggjur af því sem stundum er nefnt fjórða stoðin, og hæstv. forsætisráðherra nefndi hér, þekkingariðnaðinum sem byggir á hæfileikum íslensks hugvitsfólks. Slíkur iðnaður er í eðli sínu viðkvæmur fyrir sveiflum og þenslu því að framleiðsla hans getur farið hvert sem er. Ef ekki er hugað að því að skapa stöðug skilyrði sýnir reynslan að þessi starfsemi leggur annaðhvort upp laupana eða flytur starfsemi sína í stöðugra hagkerfi. Hvernig sér hæstv. ríkisstjórn fyrir sér að sporna við þeirri þróun?